143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[16:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda málefnalega umræðu og þeim þingmönnum sem tóku þátt í henni.

Það hefur áður, og meira að segja í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, verið stundað að afturkalla lög. Það var reyndar byrjað á að fresta þeim einu sinni eða tvisvar og síðan voru þau afturkölluð. Það hefði alveg mátt hugsa sér að það væri einhver mildari leið. Mér fannst bara skynsamlegra og skýrara að segja strax frá viðhorfi mínu til þessara laga. Ég tel að það séu það mörg atriði sem þurfi að lagfæra í lögunum, grunnurinn sé of mikið boð og bönn og það þurfi að lagfæra grunninn til að ná fram þeirri víðtæku sátt sem ég vil svo gjarnan ná fram. Meðal annars á fundi með umhverfis- og samgöngunefnd um daginn opnaði ég glaður á það að eiga samráð við hv. nefnd um vinnuna við hvernig hún muni ganga fram í vetur fyrir utan hið hefðbundna samráð sem þarf að eiga sér stað við alla þá aðila sem að málinu koma. Ég tel það skynsamlegri leið.

Við þá sem stunda hér enn dálítið, ég veit ekki hvað skal kalla þá umræðu, yfirlýsingar og skítkast hef ég svo sem ekkert að tala. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem kalla eftir að umræða um þetta mál sem og önnur sé bæði málefnaleg og yfirveguð. Það mun skila okkur meiru og ná víðtækari sátt um mál sem vissulega var mikill ágreiningur um á síðasta kjörtímabili og endaði í þessu frumvarpi sem samþykkt var með lögum eftir umtalsverðar breytingar á síðustu sólarhringum áður. Það var samþykkt með þeim fyrirvara að frestunin væri um eitt ár, þá gæfist tími og rými til að gjörbreyta aðferðafræðinni sem þar birtist. Ég vona að það takist. Ég er tilbúinn til slíks samráðs, bæði við hv. umhverfis- og samgöngunefnd (Forseti hringir.) sem og aðra aðila til að við fáum góð náttúruverndarlög sem (Forseti hringir.) um ríkir almennari sátt en það frumvarp sem var samþykkt á síðasta þingi.