143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

viðbrögð við ritinu Hreint loft -- betri heilsa.

54. mál
[16:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér þykir aldeilis leitt að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er veikur því að annars hefði ég getað verið hér ein í allan dag með fyrirspurnir. En ég ætla að spyrja tvo ráðherra, hæstv. heilbrigðisráðherra, og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra á eftir, um eftirfylgni við skýrslu sem kom út í vor, apríl 2013, undir yfirskriftinni Hreint loft — betri heilsa, og snýr að mjög mikilvægu máli, þ.e. loftgæðum og hvernig umhverfis- og auðlindaráðuneyti og velferðarráðuneytið, eða heilbrigðisráðuneytið núna, geta unnið saman að því að bæta loftgæði og gera almenning meðvitaðri um hvernig við getum bætt loftgæði.

Ég hef ekki tíma í þessu örstutta máli til að fara yfir allar þær tillögur sem lagðar eru til en þetta er ítarleg skýrsla sem snýr að þáttum sem hafa áhrif á okkar daglega líf. Þar má auðvitað nefna gamalkunna þætti, eins og tóbaksreykingar svo dæmi sé tekið, sem lúta að því sem hæstv. heilbrigðisráðherra er auðvitað að fást við í sínu daglega starfi, en líka til dæmis magni frjókorna í andrúmslofti, hvernig megi stuðla að því að gera lífið bærilegra fyrir þá sem eru með ofnæmi fyrir frjókornum, sem því miður fer vaxandi. Enn fremur hvernig megi koma í veg fyrir svifryksmengun og gera almenning líka meðvitaðri um það efni.

Stórt mál sem líka er rætt um er mygla sem virðist vera vaxandi vandamál í húsnæði á Íslandi með talsverðum heilbrigðisafleiðingum sem er oft erfitt að greina og erfitt að eiga við. Einnig má nefna málefni sem snýr að langtímaáhrifum brennisteinsvetnis. Bent hefur verið á að þegar komnar eru jarðvarmavirkjanir í nágrenni við þéttbýlisstaði er kannski ekki alveg fyrirséð hvaða áhrif brennisteinsvetni í andrúmslofti getur haft á heilsu. Við sem búum til að mynda á höfuðborgarsvæðinu sjáum það hins vegar að brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun hefur talsverð áhrif á áfallið á silfur í úthverfum borgarinnar svo dæmi sé tekið. Við vitum af þessu í andrúmsloftinu, mælingar sýna slíka mengun og þá skiptir máli að þetta sé líka skoðað út frá sjónarmiðum heilbrigðis.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um þegar svona mikil vinna liggur fyrir, sem kallar í raun og veru á þverfaglega vinnu í því hvernig eigi að bregðast við, er hvort hann hyggist bregðast við þessum tillögum. Hvaða aðgerðir menn sjá fyrir sér að hægt sé að ráðast í, hvernig starfi stýrihópsins sem vann ritið verði fylgt eftir og hvort hæstv. ráðherra sér hreinlega fyrir sér, af því að þetta er auðvitað liður í mjög mikilvægum forvörnum, að sett verði eitthvert (Forseti hringir.) fast form á það hvernig eigi að (Forseti hringir.) fást við loftmengun eða hvernig (Forseti hringir.) eigi að tryggja góð loftgæði.