143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

viðbrögð við ritinu Hreint loft -- betri heilsa.

54. mál
[16:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Þegar spurt er um tímasetningar í þessum efnum er ég frekar gefinn fyrir að gefa þær út þegar búið er að taka ákvarðanir um hvenær verk skuli hefjast. Ég lýsi hins vegar yfir vilja mínum til þess að við þokum málinu fram á veg. Ég held að það sé hluti af því stóra máli sem hv. fyrirspyrjandi nefnir varðandi forvarnir á sviði lýðheilsu. Þar eru því miður líka, ég segi því miður, mörg önnur stór verkefni að vinna sem kalla bæði á tíma, starfskrafta og fjármuni þannig að það fer einfaldlega inn í þann stóra pott sem úr þarf að vinna þar.

Þetta er þó þannig verkefni að verið er að vinna að forvörnum á þessu sviði á ýmsum starfsstöðvum, ef svo mætti segja, inni í og á vegum stofnana umhverfisráðuneytisins, á vegum heilbrigðisráðuneytisins, á vegum einstakra sveitarfélaga o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar að í sjálfu sér megi segja að það eitt að kalla saman þá aðila sem ég hef nefnt og nefndi í fyrri ræðu minni og fá þá til þess að setjast saman að þessu borði svo að þeir hafi betri yfirsýn yfir hvað hver og einn er að gera ásamt því að nýta niðurstöður þeirrar vinnu sem birtist í skýrslunni, geti orðið til þess að þoka málum í annan og betri farveg en við höfum verið með þessi málefni í hingað til.

Að því gefnu að þokkaleg sátt náist um það verklag sem hér er boðað, og ég veit að umhverfis- og auðlindaráðherra er sammála mér í þeim efnum, hef ég í sjálfu sér ekki stórar áhyggjur af því að þessum málefnum verði ekki hrint til einhverra framkvæmda innan tiltölulega skamms tíma.