143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

húsnæði St. Jósefsspítala.

87. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Margrét Gauja Magnúsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. St. Jósefsspítali hefur nú staðið tómur í bráðum tvö ár. Búið er að senda núverandi velferðarráðherra hugmyndir Hafnarfjarðarbæjar og bæjarbúa; tillögur og hugmyndir um hvaða nýja samfélagslega hlutverki spítalabyggingin gæti gegnt. Var það bréf sent í sumar þar sem einnig var óskað eftir svörum um hverjar áætlanir velferðarráðherra með húsið væru og ekkert svar hefur borist. Nú síðast á mánudaginn í síðustu viku var send aftur ítrekun og bréf til hæstv. velferðarráðherra og engin svör hafa borist.

Í ljósi þess að ráðherrann hefur í raun hafnað hugmyndum Hafnarfjarðarbæjar um hvernig hægt sé að gefa húsnæðinu nýtt samfélagslegt hlutverk, og þeirri leið sem bæjaryfirvöld lögðu til í því sambandi, er eðlilegt af bæjaryfirvöldum Hafnarfjarðarbæjar að krefjast svara við þeirri spurningu, hverjar fyrirætlanir nýrrar ríkisstjórnar í málefnum St. Jósefsspítala séu. Stendur til að auglýsa þessar eignir til sölu? Eða þýðir sú nýja stefna sem ríkisstjórnin virðist hafa tekið varðandi byggingu nýs Landspítala — eða öllu heldur að ráðast ekki í þær framkvæmdir — að húsnæði St. Jósefsspítala muni öðlast hlutverk í framkvæmdum einhverrar þeirrar þjónustu sem nú fer fram við Hringbraut eða í Fossvogi? Ætlar nýr heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að við Suðurgötu í Hafnarfirði verði rekinn spítali eða önnur samfélagsleg þjónusta? Eða ætlar hann, og sú ríkisstjórn sem hann situr í, að setja þessar eignir á sölu?

Óbreytt staða er fullkomlega óviðunandi. Húsnæðinu er ekkert haldið við. Verulega er farið að sjá á ytra byrði þess. Krotað hefur verið á flesta veggi og gleri er skipt út fyrir spónaplötur í flestum gluggum.

St. Jósefsspítali er að breytast í draugahús í hjarta Hafnarfjarðar. Ríkið, sem á 85% þessara eigna, virðist algjörlega stefnulaust um framtíðarhlutverk þess. Það er krafa frá íbúum Hafnarfjarðarbæjar, sem er jú þriðja stærsta sveitarfélagið á landinu, að fá að vita hver er framtíðarsýnin varðandi spítalann eða bygginguna. Hvaða hugmyndir hefur velferðarráðherra varðandi þessa byggingu? Og hver er sýnin eða áætlunin?