143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

húsnæði St. Jósefsspítala.

87. mál
[16:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór eiginlega í það sem ég ætlaði að ræða. Á árunum 2007 og 2008 voru uppi hugmyndir þáverandi heilbrigðisráðherra, hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, um breytingar á þeirri starfsemi sem fór fram á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Þær hugmyndir voru slegnar af, bæði vegna fjárskorts og einhverra annarra þátta sem sjaldnast komu fram. Hins vegar er í fjárlögum í dag, sem og frá fjárlögum 2011 að mig minnir, heimilað að hluti ríkisins í St. Jósefsspítala fari í sölu. Því vildi ég gjarnan fá tækifæri til þess að spyrja hv. fyrirspyrjanda hvort Hafnarfjarðarbær gæti hugsanlega tekið yfir 85% og keypt með einhverjum hætti og hvort hæstv. ráðherra mundi undir einhverjum kringumstæðum vilja binda einhverja sérstaka starfsemi á þeim stað og í því húsi sem og í Vífilsstaðaspítala (Forseti hringir.) þar sem eignarhlutinn er líka heimilaður til sölu?