143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

viðbrögð við ritinu Hreint loft -- betri heilsa.

55. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra áðan um viðbrögð hans við hinu ágæta riti Hreint loft — betri heilsa. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði um það nema að því leyti að hér er um að ræða skýrslu og tillögur sem voru unnar í samstarfi umhverfis- og auðlindaráðuneytis og velferðarráðuneytis á sínum tíma og snúa að því hvernig hægt er að bæta loftgæði í hinu daglega lífi. Nú er það svo að manni finnst kannski eðlilegast að loftgæði heyri undir umhverfisráðuneytið. Þegar rætt er við hæstv. heilbrigðisráðherra erum við auðvitað fyrst og fremst að ræða um forvarnir og viðbrögð við afleiðingum loftmengunar.

Mig langaði að spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um viðbrögð við þessu riti af því að þetta er yfirgripsmikil yfirferð og þarna koma fram skýrar tillögur. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það verði haldið áfram með vinnuna? Hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi samráðsvettvang og ég fagna því að sjálfsögðu ef hann verður settur á laggirnar en mig langaði líka að spyrja hæstv. umhverfisráðherra af því að margar þeirra tillagna sem hér eru settar fram er í raun og veru hægt að framkvæma af hálfu hæstv. umhverfisráðherra á hverjum tíma og þá er ég að sjálfsögðu að vitna til þeirra upplýsinga um loftgæði sem eru birtar á heimasíðu Umhverfisstofnunar en er hægt að nýta með mun margbreytilegri hætti. Ég vitna líka til frjókornamælinga og hvort unnt sé að bæta þeim inn í veðurlýsingar sem væntanlega snýr þá að Veðurstofunni sem heyrir líka undir hæstv. umhverfisráðherra og síðan það sem mér finnst afar mikilvægt og lítur að brennisteinsvetni og nauðsyn þess að gerðar verði rannsóknir á langtímaáhrifum brennisteinsvetnis á heilsu.

Það er auðvitað eitthvað sem er orðið mjög aktúelt mál, svo að ég leyfi mér að sletta hér, ekki síst með tilkomu fleiri jarðvarmavirkjana og kannski vitum við ekki nægjanlega mikið um áhrif brennisteinsvetnisins á heilsu manna. Við sjáum að það hefur talsverð áhrif á dauða hluti og því vakna ýmsar spurningar. Ég vil annars vegar spyrja hæstv. ráðherra um hugmyndirnar um aukið samráð þessara tveggja ráðuneyta, stofnana þeirra og sveitarfélaga um að komið sé upp einhverju virku apparati sem er að fjalla um loftgæði og hins vegar hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að hann muni láta ráðast í þær aðgerðir sem hann getur ráðist í nú þegar út frá tillögunum í ritinu óháð þeim samráðsvettvangi því að það snýr auðvitað mjög mikið að vöktun, mælingu og upplýsingagjöf til almennings.