143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Sigurjón Kjærnested (F):

Virðulegi forseti. Ég er vélaverkfræðingur að mennt og hef sem slíkur fylgst mjög spenntur með þróun tengdri sjávarfalla- og ölduorku undanfarin ár. Ég tel að nú sé sú þróun komin á það stig að hún sé orðin hagkvæm fyrir okkur Íslendinga að byrja að nýta í miklum mæli, að þarna sé á ferðinni möguleg ný stoð í orkuöflun Íslendinga.

Framtíðarmöguleikarnir eru gríðarlegir. Lauslegir útreikningar gefa til kynna að heildarorkumöguleikarnir bara á Íslandi séu um 350 teravattstundir á ári sem er töluvert meira en það sem við getum aflað okkur með þeim orkuauðlindum sem við nýtum nú þegar. Möguleikarnir á því að þetta verði ein af stoðum okkar eru miklir.

Á 141. löggjafarþingi var flutt þingsályktunartillaga, studd af 22 þingmönnum úr öllum flokkum, sem ekki varð útrædd. Í tillögunni fólst í grunninn að hefja ætti mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands — með sjávarorku er þá bæði átt við sjávarfallaorku og ölduorku — að greina ætti hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar, gera ætti drög að uppbyggingu gagnagrunns um nýtingu sjávarorku og skipaður yrði starfshópur til að ná því fram og gera áætlun um framtíðarnýtingu þessarar orku hér á Íslandi.

Ég tel að það sé allt af hinu góða og hvet til þess að tillaga þessa efnis nái fram að ganga á Íslandi vegna þess að þróunin er svo hröð, möguleikarnir eru svo miklir og tíminn er akkúrat núna. Þjóðirnar í kringum okkur, Skotar, Írar o.fl., eru að fara í stórfellda uppbyggingu á sjávarfalla- og ölduorku og ég tel mjög mikilvægt að við Íslendingar verðum ekki eftir í því.