143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir spurði innanríkisráðherra áður á þinginu um rafrænt eftirlit með föngum. Í svari ráðherra kom skýrt fram að slík úrræði eru margfalt ódýrari en það að menn afpláni í fangelsi. Ég held að þingið eigi að velta því fyrir sér hvort við getum beitt þeim úrræðum í meira mæli en nú er gert og sama á við reynslulausnarúrræðið, þ.e. að menn eigi möguleika á reynslulausn fyrr en lögin gera ráð fyrir. Augljóst er að það mundi spara heilmikið í útgjöldum ríkisins.

Fæstir fangar eru þannig að nauðsynlegt sé að þeir séu í öryggisfangelsi. Það er bara þannig. Mestallan hluta starfsævi minnar hef ég verið með föngum og ég get alveg fullyrt það, og þið getið treyst mér í því, [Hlátur í þingsal.] að við þurfum ekki að hafa svona miklar áhyggjur. Ég held að menn ofmeti líka varnaráhrifin með innilokun. Fyrir flesta er það þannig að það að fá sakfellingu, fá dóminn, er það sem er mönnum erfiðast. Ég skora á þingið að taka þetta upp og ræða það og koma með lausnir sem eru til góðs fyrir samfélagið, bæði fjárhagslega og fyrir þá sem lenda í þessari stöðu.