143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Á táknrænan hátt var ég vakin upp í nótt, ekki þó við vondan draum, það hefði verið betra. Nei, vakningin var í formi hljóðs í símanum sem tilkynnti mér að netpóstar væri að berast. Póstar sem lýsa köldum veruleika heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Vel yfir 100 íslenskir læknanemar við nám hérlendis sem og erlendis hafa nú sent okkur alþingismönnum ákall um að gera gangskör í heilbrigðismálum. Þetta er það fólk sem við gerum ráð fyrir að sinni okkur á komandi árum, en það verður að teljast mikil bjartsýni miðað við það umhverfi sem við stefnum á að bjóða þeim upp á.

Landspítalann ber auðvitað hæst í ákalli læknanema. Við höfum farið í gegnum það hér margoft hve þörfin er brýn í að rétta af halla, uppfæra tækjakost og að gefa í hjá þessari meginstoð íslensks heilbrigðiskerfis. Spítalann vantar rúma 3 milljarða á þessu ári sem og því næsta til að geta sinnt lögbundinni þjónustu af öryggi. Ég hef sagt það hér áður að ég held að það væri vit í því að við aðstoðuðum hv. þingmann og formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, við að uppfylla ágætt kosningaloforð um 12–13 milljarða til LSH. Það er svona um það bil það sem spítalann vantar á næstu fjórum árum. Eins og við vitum gerir fjárlagafrumvarpið ekki ráð fyrir tækjakaupum, ekki ráð fyrir réttingu á halla né því að sinnt verði endurbótum og uppbyggingu á LSH.

Við í Bjartri framtíð höfum bent á lausn á fjármögnunarvanda spítalans. Við hvetjum ríkisstjórnina til að sleppa þessari málamyndatekjuskattslækkun upp á 0,8% í miðþrepi. Sú lækkun skiptir einstaklinginn engu máli á mánuði og fagaðilar eins og greiningardeild Arion banka hafa sagt að þessi sem og aðrar boðaðar lækkanir á sköttum og gjöldum séu ekki til þess fallnar að breyta efnahagshorfunum. Þær eru bara því miður allt of lítilfjörlegar til þess. Þeir 5 milljarðar sem (Forseti hringir.) ríkið verður af við þennan gjörning er spítalanum lífsnauðsynlegur (Forseti hringir.) og ég held að við ættum að endurskoða þetta.