143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma hingað upp og bregðast við þeim orðum hv. þm. Brynjars Níelssonar um fangelsismál og taka hjartanlega undir með honum. Ég held nefnilega að það sé margt til í því að hægt sé að spara í fangelsismálum og ekki síður standa sig betur í að endurhæfa þá sem þar fara í gegn. Vil ég þá sérstaklega minnast á þá möguleika sem felast í samfélagsþjónustu og á síðasta kjörtímabili var opnað á ákveðna heimild til að beita þeim úrræðum betur. Jafnframt vek ég athygli á hópi sem ég held að sé tekinn of föstum tökum í þessu kerfi og það eru ungir eiturlyfjasjúklingar sem hafa leiðst inn á það að gerast burðardýr fyrir fíkniefnainnflytjendur og hljóta gríðarlega þunga dóma með langri fangelsisvist sem ég held að þjóni ekki tilgangi sínum. Í því sjónarmiði ætti frekar til dæmis að beina þeim ungmennum á einhvers konar menntabraut, reyna að endurhæfa þau og nota þá frekar þvagprufur og annað slíkt til að halda þeim á beinu brautinni. Við höfum séð og vitum það út frá rannsóknum og opinberum skýrslum að þau ungmenni koma oft aftur út í samfélagið sem mjög forhertir glæpamenn.

Ég held að þingið gæti alveg reynt að koma saman og móta stefnu í þessum efnum. Þetta er hluti af því sem á að falla undir svokallaða áfengisstefnu sem er mjög nauðsynlegt að við Íslendingar komum okkur upp.