143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:14]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það sem ég vil kannski fá aðeins skýrar fram er hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að Íslendingar gangi með beinum og sjálfstæðum hætti til samninga um fríverslun við önnur lönd og byggi ekki eingöngu á því að vinna slíka samninga í gegnum EFTA, þá horfi ég t.d. til Bandaríkjanna. Ég minni á að árið 1986 lýsti þáverandi forseti Bandaríkjanna, Ronald Reagan, því yfir að hann væri fylgjandi því að gera fríverslunarsamninga við Ísland en því miður misstu íslensk stjórnvöld af því tækifæri vegna þess að þau fylgdu því ekki eftir. Þetta eru vangaveltur mínar.

Ég þakka hins vegar hæstv. ráðherra kærlega fyrir að taka vel í hugmyndir um að nota frjálsa verslun sem hluta af því að koma þróunarríkjum eða þriðja heims löndum til aðstoðar og það kunni að vera skynsamlegri leið en sú sem við hér á Íslandi höfum farið, og Vesturlönd öll, og við förum að opna landamærin fyrir þessum ríkjum og eflum viðskiptin vegna þess að ekkert bætir hag almennings meira en opin viðskipti á milli landa.