143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það veldur mér töluvert miklum áhyggjum hve mikla trú hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra hefur á vilja kínverskra yfirvalda til að virða samninga. Ef maður kynnir sér framferði kínverskra fyrirtækja og yfirvalda í þeim löndum, t.d. í Afríku og Suður-Ameríku, þar sem samningar eru komnir á fyllist maður eiginlega skelfingu. Ég hvet þingmenn til þess að kynna sér bók sem var rædd hérlendis í þættinum Silfri Egils í september á síðasta ári og heitir China's Silent Army. Ég á þessa bók og ef einhver hefur áhuga á að fá hana lánaða er alveg sjálfsagt að lána hana, það er mjög merkileg lesning.

Hinir sömu rannsóknarblaðamenn sem skrifuðu þá bók og kynntu sér framferði kínverskra yfirvalda í löndum sem hafa gert við þá samninga hafa núna verið að skoða samninga kínverskra yfirvalda við Vesturlönd. Þar hefur ýmislegt komið fram sem mér finnst mjög mikilvægt að við kynnum okkur vel þegar við gerum svona samning.

Við hvaða lönd hefur Ísland gert svona sjálfstæða fríverslunarsamninga? Þegar maður skoðar það eru það nákvæmlega tvö lönd. Hvaða lönd skyldu það hafa verið? Það eru Færeyjar og Grænland. Það er vegna þess að það eru ekki sjálfstæðar þjóðir. Öll önnur lönd, allir svona samningar hafa farið í gegnum EFTA. Og það er ákveðinn plús að fara í gegnum EFTA, þó að það sé með sanni svokölluð risaeðla, út af því að þar er ákveðinn gerðardómur.

Af hverju erum við að ana út í samning við eitt stærsta ríki heims með þá sögu sem það hefur í mannréttindabrotum án þess að fara hægar yfir? Það hefur sýnt sig, eins og kom mjög vel fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að án þessa fríverslunarsamnings höfum við bara náð ágætisstöðu í útflutningi á áður óseljanlegum fiskafurðum.

Ég hef því nokkrar spurningar til núverandi hæstv. utanríkisráðherra og væri ágætt að fá svör við þeim. Mig langar að spyrja í fyrsta lagi: Af hverju var ekki farið í samningaferlið í gegnum EFTA eins og hefð er fyrir? Nú er þessi fríverslunarsamningur í raun og veru gerður undir forustu fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra þannig að mig langar að spyrja hæstv. ráðherra utanríkismála hvort honum finnist þetta stökk ekki fullmikið fyrir okkur, að fara frá því að gera einhliða fríverslunarsamninga við Færeyjar og Grænland yfir í samning við svona stórríki.

Þá langar mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi kynnt sér hvernig Alþýðulýðveldið Kína hefur virt samninga við önnur lönd. Síðan er annað sem ég spurði að þegar við fengum þetta mál til umfjöllunar á sínum tíma í utanríkismálanefnd. Þá lék mér forvitni á að vita hvaða fyrirtæki á Íslandi ættu hvað mestra hagsmuna að gæta í að þrýsta á að þessi samningur færi í gegn. Ástæðan fyrir því að ég spurði að því var að þegar var farið af stað með þetta ferli vorum við í samningaviðræðum um að ganga í Evrópusambandið og það stríðir gegn því. Ef við mundum ganga í Evrópusambandið þyrftum við að segja upp þessum fríverslunarsamningi.

Ég spurði á fundi nefndarinnar þá aðila sem komu úr ráðuneytinu: Hvað verður þá um þau fyrirtæki sem eru núna að fara í mikla útrás til Kína? Þá var mér sagt að til stæði að tryggja að þau mundu fá skaðabætur ef við mundum ganga í Evrópusambandið. Þetta kom fram á fundi utanríkismálanefndar þegar verið var að fjalla um þessi mál. Þetta eru þau svör sem ég fékk og ég nefndi það þá.

Mig langar til að spyrja hvort þetta geti verið rétt. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann sé meðvitaður um þetta, því að ef mig minnir rétt var hæstv. ráðherra í utanríkismálanefnd með mér á þeim tíma. Og ef hæstv. utanríkisráðherra man ekki eftir þessu hvort hann geti kannað hvort þetta sé einhver misskilningur hjá mér.

Síðan hef ég sérstakan áhuga á stórríkjum sem skyndilega koma hingað til lands og setja t.d. upp gríðarlega stórt sendiráð. Það finnst öllum rosalega skrýtið hvað sendiráð Alþýðulýðveldisins Kína er stórt og spyrja sig hvaða tilgangi það þjóni að hafa svona stórt sendiráð í svona litlu landi. Það er alveg ljóst að það mun þurfa töluvert marga aðila og marga Íslendinga til að þjónusta svona marga Kínverja á Íslandi.

Það hefur oft komið fram þegar farið hefur verið í verk sem kínversk fyrirtæki eða kínverskir verktakar hafa haft umsjón með að sett hefur verið krafa um að efniviðurinn sé kínverskur og jafnframt að kínverskt verkafólk vinni vinnuna. Það var rætt þegar við gerðum gjaldeyrisskiptasamning við kínversk yfirvöld að það væri í og með til þess að greiða leiðina fyrir slíku fyrirkomulagi. Kannast hæstv. ráðherra eitthvað við slíkt og hefur það verið skoðað?

Ég er bara að velta upp hlutum sem hafa komið fram hjá þeim sem hafa áhyggjur af þessu. Mér finnst mjög mikilvægt að við skoðum þessi atriði mjög vel því að við höfum reynslu af því að ef við förum of skarpt inn í ferla sem eru ekki nægilega vel skoðaðir getur það haft mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir land og þjóð.

Ég skoðaði þennan samning mjög vel og eins og áður hefur komið fram sat ég í utanríkismálanefnd þegar verið var að fjalla um hann. Ég fagnaði því að sett væru inn ákvæði um mannréttindabrot og annað. Síðan bar ég þau undir sérfræðinga í samningum við Kínverja og það var bara hlegið að manni. Þetta hefur enga þýðingu, þetta eru bara falleg orð á blaði, því miður.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í eina grein í samningnum sem mér var bent á, 59. gr., um þagnarskyldu. Mig langaði að spyrja hvort hann geti upplýst mig um hvort þetta sé eitthvað sem okkur finnst ásættanlegt. 59. gr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Samningsaðilar skulu fara með allar upplýsingar, sem veittar eru í tengslum við innflutning, útflutning og í öðrum skyldum málum, sem trúnaðarmál“ — mig langar að vita hvaða önnur skyld mál það eru — „og skal gilda um þær þagnarskylda í samræmi við landslög hvors samningsaðila um sig. Stjórnvöld samningsaðila skulu ekki veita þess háttar upplýsingar án skýlauss samþykkis þess aðila eða yfirvalds sem lætur þær í té.“

Þetta virðist sem sagt vera nokkurt eindæmi í fríverslunarsamningum, t.d. þeim sem EFTA hefur gert við önnur ríki. Eina undantekningin er samningur sem EFTA gerði við Hong Kong. Þar er sambærileg þagnarskylda. Af hverju féllumst við á þessa þagnarskyldu? Hvaða tilgangi þjónar hún? Er þetta eitthvað sem kemur frá okkur eða kemur það frá vinum okkar í austrinu?

Ég fagnaði því líka þegar yfirlýsing kom frá kínverskum stjórnvöldum um að þrælabúðir væru aflagðar. Ég hef aftur á móti heyrt að það sé nú ekki alveg komið í framkvæmd. Oft á tíðum er það þannig, og það hefur komið fram hjá rannsóknarblaðamönnum sem hafa sett sig í hættu við að kanna það, að búin eru til leppfyrirtæki sem taka við vörum úr þrælabúðafangelsum. Í þessum þrælabúðafangelsum eru margir meðlimir Falun Gong, þar er fólk með rangar stjórnmálaskoðanir og þar eru margir tíbeskir munkar. Finnst okkur í lagi að versla þannig vörur? Ég spyr í fullri einlægni.

Ég óska eftir að við förum ítarlega yfir þetta mál í utanríkismálanefnd.