143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson höfum unnið að mjög mörgum málefnum saman. Okkur greinir á um aðferðafræði hér og því vil ég bara ítreka að það er mjög mikilvægt að við stígum varlega til jarðar í þessu máli. Það er það sem ég er að kalla eftir.

Þess vegna finnst mér að við þurfum að velta við mörgum steinum í utanríkismálanefnd, mér finnst það bara mjög mikilvægt. Ég er ekki að draga þessa hluti fram til að reyna að setja stein í götu, þvert á móti. Ef við ætlum að fara í þessa vegferð finnst mér að við þurfum að gera það þannig að við völdum ekki landi okkar og þjóð neinum skaða. Mér finnst það bara mjög mikilvægt.

Það eru margir uggandi og við þurfum að horfast í augu við það og gera eitthvað í því. Eina leiðin til að gera eitthvað í því er að vinna þessa vinnu mjög vel í nefndinni.

Það er líka mjög mikilvægt að horfast í augu við — það er kannski erfitt að horfast í augu við það — að ástandið í Tíbet fer sífellt versnandi. Af hverju hefur ekkert lagast þar þrátt fyrir að allir séu að þrýsta og ýta á kínversk yfirvöld? Samt verða þau forhertari og mannréttindabrotin þar eru á þannig skala að manni líður illa. Ég fæ fréttir frá Tíbet á hverjum einasta degi og ég veit hversu margir hafa kveikt í sér í örvæntingarfullri tilraun til að fá okkur til að veita ástandinu sem þar er athygli. Hvernig ætlum við að bregðast við því?