143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er rétt að við sátum saman í utanríkismálanefnd þegar þessi samningur kom fyrst inn á borð þar. Ég er sammála forvera mínum, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, núverandi alþingismanni, Össuri Skarphéðinssyni, um að betra sé að tala við fólk um vandamálin en að loka á það og ræða ekki við það.

Ég átti fyrri skömmu stuttan fund með utanríkisráðherra Ísraels. Það var mjög mikilvægt að fá þann fund til þess einmitt að lýsa skoðunum Íslendinga á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs og tala fyrir málstað Palestínumanna. Það var mjög mikilvægt að eiga þann fund til þess.

Hv. þingmaður spyr af hverju rokið sé til, ef ég skil þingmanninn rétt, að gera þennan samning núna. Hann er í rauninni búinn að vera í bígerð síðan 2007, þá var byrjað að ræða þetta. Hins vegar var ástæða til að hraða samningnum eða reyna að ljúka honum núna. Það tókst sem betur fer.

Kínverjar hafa síður viljað semja við EFTA en einstök ríki. Ég kann ekki skýringu á því, það er þeirra að útskýra það. Við erum núna að klára þennan samning við þá. Þeir gerðu samning við Sviss sem á eftir að staðfesta, ef ég man rétt.

Síðan er spurt hér hvort þeir virði samninga. Ég held að við þurfum ekki að óttast það í sjálfu sér fyrir fram að Kínverjar virði ekki þennan samning. Eftir því sem mér skilst hafa þeir t.d. virt ágætlega samning sinn við Nýja-Sjáland. Við eigum hins vegar í viðskiptum við nágrannaríki okkar sem hóta okkur viðskiptaþvingunum, hvort sem það er til austurs eða vesturs. Virða þeir þá samninga? Þetta er alltaf áhætta, ég viðurkenni það.

Vinnumál. Við ætlum að taka upp vinnumál við Kínverja, að sjálfsögðu sýknt og heilagt ef þeir standa sig ekki. Það samkomulag sem hér er verið að tala um er mjög mikilvægt. Það er unnið í samráði við Alþýðusamband Íslands.

Varðandi bæturnar þá (Forseti hringir.) stóð aldrei til að þær kæmu frá Íslandi en ef hins vegar Evrópusambandið og Kínverjar hefðu haft slíkan samning (Forseti hringir.) hefði ESB þurft að borga bætur.