143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:56]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um bókun í fylgiskjali III á bls. 54 í 3. lið. Þar segir:

„Ísland fylgir þeirri stefnu að Kína sé eitt og óskipt ríki og styður friðsamlega þróun samskipta yfir sundið og þá viðleitni að Kína sameinist á ný með friðsamlegum hætti.“

Ég spyr í framhaldi af þessari yfirlýsingu, þar sem Kína metur mikils fyrrnefnda afstöðu ríkisstjórnar Íslands, hvort yfirlýsingin þýði að einhverjar hömlur verði á viðskipti við Tævan, hvort þessi samningur komi í veg fyrir fríverslun við Tævan. Tævan hefur verið mikilvægt viðskiptaland og keypt mikið af sjávarafurðum frá Íslandi. Hefur þessi samningur einhver áhrif þar á?

Ég geri mér grein fyrir því að þessi samningur kemur fyrir utanríkismálanefnd og áskil mér rétt til að fjalla um hann víðar þar en þessi yfirlýsing er nokkuð stór.