143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég þekki það dæmi nokkuð vel. Um það hef ég það eitt að segja að kínverskir kapítalistar eru hvorki betri né verri en kapítalistar almennt. Sumir eru áreiðanlegir, sumir ekki. Menn verða eins og jafnan að gæta sín á viðskiptum við alla þá sem koma langt að áður en þeir festa fé í þeim. Ég las þessa grein en þekkti þetta mál líka áður, var kynnt það.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ég sé að leggja áherslu á fríverslunarsamninga við Suðaustur-Asíu. Svarið er já. Það liggur alveg fyrir. Ég fylgdi utanríkisstefnu sem byggðist á þrennu á sínum tíma, Evrópuleiðinni, Asíugáttinni og norðurslóðum. Ég dró aldrei dul á að það var tvísýnt með Evrópusambandið og þess vegna sagði ég það úr þessum ræðustól að við veðjuðum ekki á einn hest. Við hengjum okkar hatt sem víðast, þannig á lítil þjóð að haga sér, opna öll tækifæri sem hægt er.

Nú er uppstytta í Evrópuleiðangrinum, hún kann að verða löng. Við höfum þennan samning. Það fer algjörlega eftir okkur hvað út úr honum kemur. Hann getur orðið okkur mjög notadrjúgur.

Tvíhliða samningar eru ágætir. Við erum lítil þjóð, við höfðum sérstakan möguleika af sögulegum ástæðum til þess að ná þessum samningi, EFTA hafði hann ekki. En að öðru leyti, og ég vona að hv. þingmaður fyrtist ekki við, þá fer ég í þessu efni eftir því sem Deng Xiaoping sagði: Mér er alveg sama hvernig kötturinn er á litinn svo fremi að hann veiði mýs. Hvort sem það eru marghliða viðskiptasamningar eða tvíhliða, ef það þjónar hagsmunum Íslands á að gera þá.

Það vill svo til að þetta er það svæði heimsins sem er í örustum vexti, þarna eru að koma upp ný viðskiptaveldi, þarna eru að koma upp öflugar, sterkar millistéttir og það skiptir máli fyrir okkur, sérstaklega út frá því hvernig útflutningi okkar er háttað og hvers eðlis hann er, að ná fótfestu þar. Það skiptir enn meira máli að ná forskoti á viðskiptaþjóðir.