143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég vil ekki vera vondur við hv. þingmann en hún á að lesa heima. Hún kemur hér og heldur lexíur yfir okkur hinum, að við höfum ekki lesið hinar og þessar bækur — sem við höfum að vísu lesið. Hv. þingmaður hefur hvorki hlustað á hæstv. utanríkisráðherra, sem flutti hér prýðilega framsögu áðan og skýrði þetta, né lesið samninginn. Þar kemur algjörlega skýrt fram að það sem Íslendingar náðu umfram t.d. Nýsjálendinga er að hingað getur enginn komið, það er ekki frjáls för vinnuafls, það er ekki hægt að fara þá leið sem hv. þm. hefur lesið hér upp. (Gripið fram í.) Þetta eru samningarnir sem hæstv. utanríkisráðherra leggur hér fram til staðfestingar og fyrri ríkisstjórn gerði. Þar er tekið á þessu. Það var ekki síst út af þessu sem uppstytta varð á samningunum árum saman, vegna þess að Íslendingar vildu þetta ekki. Ef hv. þingmaður les samninginn kemst hún að því að það er mögulegt fyrir Kínverja að ræða það einhvern tíma í framtíðinni, fara þess á leit við Íslendinga hvort hingað sé hægt að fá menn, Kínverja, til þess að kenna kínversku, elda kínverskan mat eða kenna kínverskar bardagaíþróttir. Það er Íslendingum algjörlega í sjálfsvald sett hvort þeir verða við slíkum óskum, með öðrum orðum Íslendingar hafa meira en vetó á það, þannig að sú lýsing sem hv. þingmaður var með hérna áðan er ekki hinn íslenski raunveruleiki.

Þetta var það sem hið góða samningafólk Íslands náði út, reyndar á síðustu stigunum, þannig að hv. þingmaður þarf ekki að vera hrædd um þetta. Við lærum af reynslunni og reynslu annarra þjóða. Það sést í þessum samningi.