143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram um þennan samning. Ég vonast að sjálfsögðu til þess að markmið okkar náist, þ.e. að klára hann þannig að við getum staðfest þetta í byrjun janúar á næsta ári. Ég held að þessi samningur geti breytt miklu fyrir útflutning okkar og eins fyrir þau fyrirtæki sem eru að flytja inn vörur — ég vonast til að hægt verði að nýta hann í þá veru.

Ég hef ekki jafnmiklar áhyggjur og margir aðrir af samningnum vegna þess að hér er ekki verið að breyta íslenskum lögum í þágu viðsemjenda okkar. Ekki er verið að opna á frjálst flæði vinnuafls. Ekki er verið að gefa eitthvað eftir þegar kemur að íslenskri vinnulöggjöf eða neitt slíkt. Hér var spurt um hvenær vinnumálasamkomulagið yrði tilbúið og kynnt. Ég er að vonast til þess — það er nú alltaf hættulegt að nefna tímasetningar eins og við vitum — að í nóvember verði það orðið klárt. Kínverjarnir eru með þetta hjá sér í dag og eru að skoða orðalag og þær kröfur sem við höfum sett fram en það er ekki langt eftir að mínu viti.

Hér var aðeins nefnt líka í dag í umræðunum — hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi það einmitt varðandi þróunarmálin, og er ágætt að segja frá því, að í dag eru fluttar inn vörur frá löndum sem teljast þróunarlönd, kaffi, kakó og ýmislegt annað, með lágum eða engum tollum. Ef við hefðum hins vegar álpast inn í Evrópusambandið hefði þetta fallið niður og komið hér tollar. Ég tel að tækifæri felist í þessum samningi eins og ég nefndi áðan. Við þurfum hins vegar að nýta okkur það og það er kannski eitthvað sem Íslendingar almennt þurfa að velta fyrir sér, varðandi þá fríverslunarsamninga sem við höfum, hvort við erum að nýta okkur þá með þeim hætti sem við eigum að gera og getum gert.

Ég vonast svo að sjálfsögðu til þess að nefndin fari vel yfir þetta og nýti vel tímann sem fram undan er til að fara í gegnum samninginn.