143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 45/2013 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

75. mál
[15:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2013, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/EB, frá 21. október 2009, um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum.

Með tilskipuninni er stefnt að því að draga úr loftmengun og bæta loftgæði með því að draga úr losun bensíngufu út í andrúmsloftið. Í þeim tilgangi er í tilskipuninni kveðið á um skyldu til uppsetningar gufugleypa á bensíndælur á bensínstöðvum sem selja bensín umfram þau lágmarksmörk sem tilgreind eru í tilskipuninni.

Skylda til uppsetningar gufugleypa á grunni tilskipunarinnar verður hins vegar fremur takmörkuð hérlendis þar sem árleg sala bensíns á stórum hluta íslenskra bensínstöðva er undir þeim mörkum sem kveðið er á um í tilskipuninni eða á þeim mörkum að eingöngu þarf að setja upp gufugleypa ef stöðin undirgengst meiri háttar endurnýjun eða ef byggð er ný stöð af þeirri stærðargráðu sem um ræðir.

Til þess að innleiða tilskipun 2009/126/EB þarf að setja lagastoð fyrir því að skylda bensínstöðvar til þess að setja upp 2. stigs gufugleypibúnað á bensíndælur. Í dag er ekki fyrirséð hvenær slíkt frumvarp verður lagt fram.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felast svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara. Ég vil taka fram að haft var samráð eða samstarf við olíufélögin varðandi þetta.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.