143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[15:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Ég hefði svo sem getað tekið til máls undir hvaða dagskrárlið sem er frá 3 til 7 þar sem beðið er um samþykki á ákvörðunum EES-nefndarinnar. Ég hef nefnilega dálitlar áhyggjur af því sem gerist hér í þingsal þegar kemur að samskiptum okkar við Evrópusambandið og innleiðingu EES-reglna. Á þessu ári eru 20 ár síðan EES-samningurinn var samþykktur í þessum sal og lögin tóku gildi í ársbyrjun 1994.

Við getum haldið því fram að við höfum að mörgu leyti mjög góða reynslu af EES-samningnum og höfum notið þess að hafa aðgang að Evrópska efnahagssvæðinu, en við höfum líka goldið fyrir galla, ekki síst þá galla sem reyndust í regluverki fjármálamarkaða og ættu að vera þingmönnum í þessum sal kunnir. En áhrif Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn á íslenska lagasetningu og reglugerðarsetningu eru orðin svo mikil að því má halda fram og færa fyrir því rök að þessi ágæta samkoma sé í raun til málamynda þegar kemur að innleiðingu EES-reglna. Og það kemur í ljós þegar við lítum yfir salinn í dag að áhugi þingmanna á EES-samningnum, innleiðingu þeirra reglna sem beðið er um, er ekki mjög mikill.

Svipað er að segja um lagafrumvörp. Það er þannig að tilskipanir Evrópusambandsins hafa oft verið leiddar í lög án þess að þessi góða samkoma hugleiði hvort slíkt sé nauðsynlegt eða hvort okkur Íslendingum beri yfir höfuð nokkur skylda til að leiða slík ákvæði inn í lagasetningar. Ég nefni sem dæmi lög um fjölmiðla þar sem ein helsta röksemd fyrir stofnun eftirlitsstofnunar, sem heitir Fjölmiðlastofa, var sú að þetta væri samkvæmt kröfu og skyldum sem við hefðum undirgengist vegna EES-samningsins, sem var rangt.

Atli Gíslason, fyrrverandi þingmaður, sagði í viðtali við Morgunblaðið 7. júlí 2012, með leyfi forseta:

„Það eru mörg fræg dæmi um að við gleypum þetta allt hrátt. Ég tel því að það þurfi að fara fram alvöruumræða og allsherjarúttekt á stöðu mála í dag miðað við þær forsendur sem menn gáfu sér þegar við gengum í EES.“

Hann segir einnig:

„Við fáum eina og eina tilskipun í einu og málin eru ekki skoðuð heildstætt. Við höfum um það bil mánuð eftir að tilskipanirnar koma til EFTA og síðan eru málin ekkert skoðuð. Veittur er frestur til að gera athugasemdir og fyrirvara.“

Ég ætla að halda áfram, með leyfi forseta, að vitna í Atla Gíslason:

„Ég er sjálfur hættur að taka þátt í innleiðingum í gegnum EES-samninginn á þingi; greiði þeim ekki atkvæði. Ég hef ýmist setið hjá eða greitt atkvæði gegn þeim vegna þess að ég tel að í þeim felist framsal á löggjafarvaldi. Þessum innleiðingum hefur fjölgað mjög eftir að ESB-umsóknin var lögð fram.

Við getum ekki hróflað við neinu á þinginu. Til okkar koma tilskipanir sem þingið tekur kannski engan þátt í.“

Það er auðvitað dálítið kaldhæðnislegt, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, vék hér að, að það skuli koma í hlut ágæts Skagfirðings, hæstv. utanríkisráðherra, að mæla fyrir innleiðingu EES-tilskipana og ég veit að í einhverju finnst honum óbragð að því. Ég held hins vegar að kominn sé tími til að þessi samkoma hér, löggjafarvaldið, fari að ræða um það hvort ekki séu efnislegar ástæður til þess að endurskoða EES-samninginn frá grunni, átta okkur á því hvaða áhrif EES-samningurinn og tilskipanir sem honum fylgja hafa haft á íslenska lagasetningu, hvaða lög og reglur hafa verið innleiddar sem okkur ber ekki skylda til, og hvort við eigum ekki að endurheimta að fullu aftur löggjafarvald okkar með þeim hætti sem eðlilegt getur talist hjá sjálfstæðri þjóð.