143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[15:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé góð umræða sem hv. þm. Óli Björn Kárason hefur tekið upp. Ég hlustaði grannt eftir andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem þekkir málin vel, en það var ástæðan fyrir því að ég fór hingað upp að ég vildi mótmæla flestu því sem þar kom fram.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við tölum um þessi mál út frá staðreyndum. Ef einhver á sér þann draum að ef Ísland gangi í Evrópusambandið förum við að stýra lagasetningu þar þá hvet ég þann hinn sama til að kynna sér málin betur. Við fengjum þrjá, hugsanlega fimm, þingmenn á Evrópuþinginu af 755, sem ég held að þar séu. Nú hafa hv. þingmenn tækifæri til þess, og ég get hjálpað þeim með það, ef einhver vandi er með að komast í tengsl við aðila þar, að kynna sér starfsemina í Evrópuþinginu sem er bæði í Brussel og Strassborg. (Gripið fram í.) — Já, það er nefnilega það sem ég var að vonast til að hv. þm. Össur Skarphéðinsson mundi biðja mig um að hjálpa sér við, þ.e. að kynna sér þau mál. Einhverra hluta vegna fer þingið í lest, eða eftir öðrum leiðum, nokkurn veginn allt saman og færir sig á tveggja vikna fresti frá Brussel til Strassborgar. Það hljómar eins og einhvers konar skröksaga en þannig er þetta.

Allar þær þjóðir sem við berum okkur saman við — eða ég held flestar þjóðir innan Evrópusambandsins, í það minnsta þar sem ég fylgist með fréttum — eru nákvæmlega að ræða þetta, að þeim finnist að valdið sé farið frá sér yfir til Evrópusambandsins. Á sama hátt finnst Evrópuþingmönnum þeir hafa afskaplega lítið vægi á þeim vettvangi. Það er ástæðan fyrir því að menn tala um að Evrópusambandið sé ólýðræðislegt, að það séu fyrst og fremst embættismennirnir sem stýri þar og það sé orðið svo gríðarlega langt frá hinum almenna kjósanda til þeirra aðila sem taka ákvarðanir.

Ég hitti einu sinni breskan þingmann sem var einn af sárafáum úr þeim hópi sem hafði áhuga á sjávarútvegsmálum, hann var úr þeim kjördæmum. Þetta var fyrir mjög mörgum árum. Hann sagði við mig um það sem við mundum finna fyrir í Evrópusambandinu: Það versta er þegar kjósandi kæmi til mín og segðist ósáttur með eitthvað í sjávarútvegsmálum. Þá þyrfti ég að segja: Veistu, ég get ekkert gert í þessu, þú verður að tala við Evrópuþingmanninn þinn. — Sjáum í anda þegar hæstv. ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson er á ferð í Norðvesturkjördæmi og til hans koma ósáttir kjósendur — þar hafa menn nú skoðanir á sjávarútvegsmálum eins og alls staðar annars staðar á landinu. Hæstv. ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson verður þá bara að yppta öxlum og segja: Þú verður að tala við Evrópuþingmanninn. Ég hef ekkert um þetta mál að segja. Sjá menn það fyrir sér, hvernig það mundi líta út í íslenskum veruleika?

Þrátt fyrir alla galla EES má færa full rök fyrir því að við höfum nú fengið ansi mikið þegar kom að þeim málum vegna þess að við getum þrátt fyrir allt, þó svo við höfum ekki nýtt okkur það nema stundum, haft áhrif þegar verið er að semja tilskipanir á fyrstu stigum. Það er hins vegar mjög misjafnt hvað stjórnkerfið er vakandi með það, mjög misjafnt og misjafnt hvað viðkomandi stjórnvöld hafa verið vakandi.

Hv. þingmaður man ekki eftir slysum. Ég skal segja ykkur frá stórslysi sem ég hef rætt hvað eftir annað í þessum sal. Því miður gerði síðasta ríkisstjórn vitandi vits ekkert í að gæta hagsmuna Íslendinga í risamálum. Þá er ég að tala um innstæðutryggingar. Samþykkt var tilskipun án nokkurrar undanþágu hjá Evrópusambandinu og var væntanlega verið að keyra það í gegnum EES-samninginn — og væntanlega eigum við að reyna að keyra það í gegn — sem felur í sér að þessi illræmda innstæðutilskipun Evrópusambandsins sem hefur valdið okkur og öðrum þjóðum í Evrópu, eða sérstaklega Íslandi, gríðarlegum skaða, hvorki meira né minna en Icesave-málum. Það er búið að gera þá hörmulegu tilskipun enn verri. Hún var þannig að það átti að tryggja 20 þús. evrur á hverjum reikningi. Það var auðvitað of hátt. Hvað gerðu þeir? Þeir hækkuðu hana upp í 100 þús. kr. Það var þannig að það var ekki ríkisábyrgð eins og frægt er orðið sem var kannski það skásta í þeirri tilskipun. Og hvað gerðu þeir? Þeir sáu til þess að nú er ríkisábyrgð. Í ofanálag var tíminn sem á að greiða út úr reikningunum styttur. Og hver ber ábyrgð? Viðkomandi ríki, ríkissjóður.

Síðasta ríkisstjórn reyndi að keyra þessa tilskipun í formi lagafrumvarps tvisvar frekar en þrisvar í gegn á síðasta kjörtímabili, það var stoppað. Ég tók það upp hvað eftir annað hvort forustumenn ríkisstjórnarinnar, eða hv. þingmenn stjórnarliðsins, mundu ekki reyna að hafa áhrif á þessi mál eins og Norðmenn voru að reyna að gera, en ekkert varð úr því. Ég fór sjálfur til Strassborgar, hitti forustumenn í viðkomandi nefnd þar sem ég útskýrði fyrir þeim stöðu mála og benti á hið augljósa að þú getur ekki verið með tryggingafélag með þrjá viðskiptavini eins og um er að ræða hér á Íslandi. Hver einasti þingmaður í Evrópuþinginu skildi þetta eðli málsins samkvæmt.

Það er ekki þannig að ég og hv. þm. Óli Björn Kárason og hv. þm. Frosti Sigurjónsson gætum stofnað tryggingafélag um okkur þrjá og ætlað að borga sömu iðgjöld og þar sem félagar væru tugir þúsunda, segjum t.d. bílatryggingar. Það er bara augljóst. Þegar Frosti mundi keyra út af og eyðileggja fína jeppann sinn þá værum við fullkomlega gjaldþrota. Það er það sem við erum að innleiða með ábyrgð skattgreiðenda vegna þess að síðasta ríkisstjórn vildi ekki gera neitt í þessu. Og það er ógleymanlegt að þegar ég talaði við formann nefndarinnar, sem heitir Pieter Símon, ef ég man rétt, og aðra nefndarmenn þá sögðu þeir allir við mig: Já, við skildum þetta en hvað ert þú að gera þetta, hvar er ríkisstjórnin? Norðmenn eru að hamast í þessu. Þeir vildu að vísu hækka þetta en ekkert var gert í þessu, ekki nokkur skapaður hlutur.

Við erum smáþjóð, við getum ekki stjórnað heiminum þó að við gjarnan vildum það. Þá snýst þetta um það hvernig við nýtum þá möguleika sem við höfum og enginn valkostur er fullkominn, langt í frá. En því miður hefur verið fullkomin vanræksla af hálfu íslenskra stjórnvalda, sérstaklega síðustu ríkisstjórnar, þegar kom að þessu risamáli. Það getur enginn haldið því fram að ekki hafi verið vakin athygli á því. Hver sá sem vill fara í Alþingistíðindi getur flett upp sérstökum umræðum um þetta mál sem ég átti við viðkomandi ráðherra. Ég tek fram að það var ekki við hv. þm. Össur Skarphéðinsson því að þetta var ekki á hans forræði. Ég tók þessa umræðu við hv. þm. Árna Pál Árnason og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og fyrrverandi hæstv. ráðherra Gylfa Magnússon.

Virðulegi forseti. Það eru nefnilega ýmis stór mál sem við verðum að vera vakandi fyrir. Mín skoðun er sú að við eigum að nýta þau tæki sem við fáum innan EES-samningsins og mín skoðun er sú að við eigum að haga skipulagi þingsins á þann veg að við séum vakandi yfir þeim tilskipunum sem eru á leiðinni og reyna að hafa áhrif á það þegar það snertir hagsmuni okkar. Hér var beðið um dæmi um slys. Ég hugsa að raforkutilskipunin hafi kannski ekki verið það albesta sem við hefðum getað tekið upp, sem sett var á laggirnar til að koma á samkeppni á raforkumarkaði í Evrópu. En það gleymdist að landið okkar, Ísland, er kannski ekki alveg landfast við þann markað og þarf nokkuð til þess að koma á sæstreng á milli. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í það.

Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að vekja athygli á þessu máli því að um er að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir íslenska þjóð. Ég hvet menn til að kynna sér störf Evrópuþingsins, störf Evrópuþingmanna, jafnvel spjalla við þá, ef menn eru á þeirri skoðun að við séum að detta inn í eitthvert himnaríki þar sem við fáum að stýra öllum þeim málum sem okkur finnst við ekki stýra núna, þ.e. ef við gengjum í þetta blessaða Evrópusamband. Ég held að það mál þurfi ekki mikla skoðun. Menn geta jafnvel aflað sér upplýsinga af internetinu og séð að því fer víðs fjarri að málum sé þannig fyrir komið.