143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[15:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir það góða boð að vilja kynna mig fyrir Evrópuþinginu og Brussel. Ég get síðan í fyllsta trúnaði upplýst hann um að ég hef kynnst innvolsi dýrsins í Brussel kannski umfram það sem er minni pólitísku og líkamlegu velferð fyrir bestu. [Hlátur í þingsal.] Ég ætla að eiga það góða boð inni hjá hv. þingmanni. En það er hins vegar dálítið erfitt að eiga hér orðastað við þingmenn Sjálfstæðisflokksins [Hlátur í þingsal.] því að þeir tala sitt á hvað.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem flutti hér innblásna ræðu, vill að við notfærum okkur EES-samninginn en hv. þm. Óli Björn Kárason segir að hann sé kominn út fyrir það sem stjórnarskráin leyfi og ég er sammála hv. þingmanni um það.

Mér finnst hins vegar að hv. þm. Guðlaugur Þór hafi sýnt þinginu það mjög vel að hann er að sóa talentum sínum með því að vera hér. Hann á náttúrlega fyrst og fremst heima á Evrópuþinginu að verja hagsmuni Íslendinga. Þannig var innblásturinn í ræðu hans áðan.

Hv. þingmaður talaði um að menn hefðu átt rosaleg afglöp með því vilja innleiða innstæðutryggingatilskipunina, sem hann nefndi svo, og fór sárum og beiskum orðum um samskipti sín við ýmsa ráðherra. Ja, nú ber vel í veiði, það vill svo til að á málaskrá hæstv. fjármálaráðherra, sem er leiðtogi lífs hans, formaður Sjálfstæðisflokksins, er akkúrat frumvarpið til að innleiða innstæðutryggingatilskipunina þannig að það verða hæg heimatökin hjá hv. þingmanni. Hann þarf ekki annað en berjast gegn henni í flokki sínum. Við skulum þá sjá það þegar vetri sleppir hvor hefur betur, hann eða skepnan í Brussel, hvor það er sem virkilega ræður þá; sjónarmið hans hins frjálsborna sjálfstæðismanns sem ekki vill láta skipa sér fyrir eða ESB. Það er undir honum komið og Sjálfstæðisflokknum þannig að það þýðir ekkert fyrir hann að koma hingað og rífa sig niður í rass. (Forseti hringir.) Nú er málið í hans höndum. Ætlar hann að sleppa því máli í gegn?