143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók svona til orða áðan, um það hvar hv. þingmaður muni verða niðurkominn þegar menn greiða að lokum atkvæði um frumvarp hæstv. fjármálaráðherra, sem hv. þingmaður er greinilega á móti, vegna þess að ég geng út frá því, út frá reynslu minni af hv. þingmanni, að hann muni ekki taka þátt í því að samþykkja það. Hann getur það ekki ef hann ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér. Það er hugsanlegt að hv. þingmaður hafi einhverja galla, ég þekki þá ekki og ætla ekki að telja þá upp, en ég veit að hann er samkvæmur sjálfum sér. Það er ómögulegt fyrir hann, eftir það sem hann hefur sagt hér og fyrr, að styðja það frumvarp.

Að því er varðar síðan möguleika okkar til að hafa áhrif innan stórra ríkjabandalaga þá á hv. þingmaður bara að skoða söguna — hann á bara að skoða með hvaða hætti Íslendingum hefur tekist á slíkum vettvangi að koma sínum málum fyrir borð. Hv. þingmaður á til dæmis að skoða hvernig stendur á því að aldrei var gripið til refsiaðgerða gegn Íslendingum út af makríldeilunni þrátt fyrir kröfu bæði stórra ríkja og smárra. Af hverju heldur hv. þingmaður að það hafi ekki gerst? Það er vegna þess að Ísland læsti klóm saman við aðrar þjóðir sem eru vinaþjóðir, bæði stórar og smáar, litlar eins og þær sem ég taldi upp áðan, stórar eins og Þýskaland, sem er öflugast af þjóðum innan ESB.

Að því er varðar spurningu hv. þingmanns, um innstæðutryggingatilskipunina, segir ég honum það algjörlega skýrt að ef hæstv. fjármálaráðherra leggur það mál fram með nægilega sterkum rökum mun ég styðja það.