143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekkert um núverandi hæstv. fjármálaráðherra sem við höfum báðir mætur á. Þetta snýst um það — og ég spyr hv. þingmann ekki hvort hann verði sannfærður af einhverjum einstaklingi, vegna þess að þetta mál er mjög einfalt. Það er reyndar þannig að nokkurn veginn öll íslenska þjóðin þekkir innstæðutilskipunina af biturri reynslu og hv. þingmaður gerir það líka.

Ég spyr: Telur hv. þingmaður það ásættanlegt, út frá hagsmunum Íslendinga, að við innleiðum þessa tilskipun þar sem við hækkum hverja tryggingu úr 20 þús. evrum í 100 þús. evrur?

Bara svo menn átti sig á því að ef einn banki af þessum þremur fer á höfuðið — nú má einhver trúa því að það gæti gerst að bara einn fari, við vitum að bankar geta farið á höfuðið svo mikið er víst — þá tekur það tóman innstæðutryggingarsjóð Íslendinga 96 ár að safna fyrir þeirri upphæð.

Munurinn á tryggingunni núna og því sem verður ef við innleiðum hana er að ríkisábyrgð er á þessu. Á nokkrum dögum verður íslenska ríkið að greiða þetta út. Á nokkrum dögum, ég man ekki hvort það eru sjö eða 21 dagur, það skiptir ekki máli — þó að það væru 40 eða 60 dagar.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann það ásættanlegt fyrir Ísland að innleiða svona löggjöf? Einföld spurning. Hv. þingmaður þekkir þetta mál inn og út. Ég held að það sé mjög eðlilegt, burt séð frá öllu öðru, að við fáum skýrt svar frá hv. þingmanni um hvort hann telji það ásættanlega áhættu fyrir íslenska skattgreiðendur og skynsamlegt fyrir íslenska þjóð að innleiða þessa tilskipun.