143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:21]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki ætlun mín að æsa hv. þm. Össur Skarphéðinsson svo upp að hann tæki lungann úr deginum í umræðu af þessu tagi, en látum það nú vera. Það er yfirleitt þannig að við hv. þingmaður erum ekki sammála í öllu. Ég á mér draum. Ég á mér þann draum að við getum haft samskipti við önnur lönd, opin viðskipti og samvinnu við önnur lönd án þess að ganga á fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar. Það er minn draumur. Fyrir því ætla ég að berjast.

Hv. þingmaður ætlar að fara aðra leið. Hann er tilbúinn að fórna sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar til að ná fram einhverjum efnahagslegum markmiðum. Ég tel að það séu aðrar leiðir færar. Eins og hv. þingmaður veit eru stjórnmál list hins ómögulega. Auðvitað getum við ef við viljum farið í þá vinnu, og þá í samvinnu við frændur okkar Norðmenn, að athuga hvernig skynsamlegt sé að endurskoða EES-samninginn þannig að hann þjóni hagsmunum okkar Íslendinga betur en nú er, en á sama tíma eigum við að sjálfsögðu að athuga hvaða möguleikar eru í því að efla samskipti við þjóðir í norðurhöfum, Bandaríkin, Kanada, Grænland, Færeyjar og Noreg og þess vegna Rússland.

Það eru ekki rök í þessu að það séu kannski fremur lítil viðskipti við Bandaríkin eða Kanada. Ef þau rök ættu að gilda hefði hv. þingmaður aldrei beitt sér sem utanríkisráðherra fyrir því að gera fríverslunarsamning við Alþýðulýðveldið Kína vegna þess að þau viðskipti eru þó miklu minni en þau (Forseti hringir.) sem við höfum við Bandaríkin.