143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 129/2013 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

78. mál
[16:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn um opinber innkaup og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB, frá 13. júlí 2009, um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB.

Tilskipunin kveður á um samræmingu á reglum við innkaup á verk-, vöru- eða þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og getur því eftir atvikum varðað verkefni á sviði landamæravörslu, landhelgisgæslu, löggæslu og hættustjórnun.

Markmið með reglunum er að jafna samkeppnisskilyrði og lækka kostnað. Að sama skapi taka nýju reglurnar tillit til þeirra sértæku krafna sem eðli málsins samkvæmt fylgja þessu sviði, einkum á sviði afhendingar og upplýsingaöryggis, en eldri reglur þóttu hvorki fyllilega tryggja upplýsingaöryggi né stuðla að sem hagkvæmustu innkaupaferli.

Innleiðing tilskipunarinnar 2009/81/EB kallar á breytingu á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Gert er ráð fyrir því að innleiða tilskipunina með setningu reglugerðar með stoð í þeim lögum.

Þá verða jafnframt gerðar breytingar á reglugerð nr. 755/2007, um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutning og fjarskipti, en tilskipunin gildir jafnframt um innkaup þeirra stofnana ef verið er að kaupa vörur, verk eða þjónustu á sviði öryggismála, eða ef innkaupin tengjast öryggisupplýsingum.

Fyrirhugað er að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram lagafrumvarp á yfirstandandi þingi um breytingar á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felast svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.