143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

greiðsluþjónusta.

9. mál
[17:04]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar bara að þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni fyrir að bjóða okkur að vera með á þessu lagafrumvarpi. Það er í kjarnann klassískur píratavinkill sem við tökum á þetta. Það er verið að bæta upplýsingagjöf til neytenda, þar að auki verið að auka val neytandans og uppræta óeðlilega samkeppnishindrun sem hefur verið við lýði.

Ég man eftir því þegar maður fór í verslanir fyrir mörgum árum var manni oft boðið: Viltu greiða með debetkorti eða kreditkorti? Ef maður greiddi með debetkorti þannig að það fór beint af reikningnum inn á reikning verslunareigandans gat maður greitt aðeins lægra gjald. Ég hef rekið mig á það síðustu árin að þetta er horfið. Ég spurðist fyrir um þetta um daginn og þá var þessi valkostur bara ekkert í boði þannig að ég fór að skoða hvað þetta væri.

Svo kemur hv. þm. Frosti Sigurjónsson, er greinilega búinn að greina þetta mál vel og leggur fram frumvarp sem, eins og ég segi, eykur upplýsingar til neytenda, ryður úr vegi óeðlilegum samkeppnishindrunum og eykur val neytenda. Þetta er hið besta mál.