143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

35. mál
[17:18]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessari tillögu og tek heils hugar undir hana. Ég vil benda þeim þingmönnum sem eru hér í salnum á 6. síðu í þingsályktunartillögunni. Þar kemur fram að 41,7% af barnafötum eru keypt erlendis. Það er gríðarlega hátt hlutfall. Við sjáum líka ef við skoðum línuritið sem er neðar að ekki er munur á milli kynja en það er yngra fólkið sem fer til útlanda til að kaupa barnaföt og einnig að ungt fólk af höfuðborgarsvæðinu fer í ríkari mæli til útlanda til að versla heldur en fólk af landsbyggðinni.

Nú er að fara í hönd sá tími þegar flugfélögin bjóða mjög lág fargjöld sem er auðvitað af hinu góða, ég er ekki að segja það, og þá mun ungt fólk í auknum mæli fara til útlanda til að versla fyrir jólin, kaupa jólafötin. Þetta hefur slæm áhrif á verslun hér á landi. Það er alveg ljóst. Ég get alveg deilt áhyggjum hv. þm. Helga Hrafns að við erum að tapa einhverju í tollum. En á móti kemur að við fáum auknar tekjur af versluninni innan lands ef við gætum okkar í álagningu á tollum á þessa vöru.