143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

35. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir allt það sem hv. þingmaður nefndi hér og hvet bæði hv. þingmenn og aðra sem eru að fylgjast með þessu til að skoða skoðanakönnunina. Mér brá þegar ég sá þetta svart á hvítu og sérstaklega þegar ég leit á fjölskyldutekjurnar. Það er áhugavert að þeir sem kaupa 70–75% af vörunum hér á landi, það eru 42% sem kaupa barnaföt í útlöndum, eru þeir sem eru með mánaðarlaun undir 399 þús. kr., þ.e. 75% af þeim kaupa þau hér á landi. Það er alveg skýrt. Það er algjör fylgni bæði hvað varðar barnafötin og aðrar vörur sem voru mældar eftir tekjum. Þeir sem eru með hærri tekjur kaupa vörurnar í öðrum löndum.