143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Þorsteinn Magnússon (F):

Hæstv. forseti. Ég vil líkt og síðasti ræðumaður, hv. þm. Helgi Hjörvar, gera að umtalsefni þá forgangsröðun sem er nauðsynlegt að viðhafa í þinginu á næstunni, í þeirri vinnu sem fram undan er við vinnslu fjárlaga. Ég er sammála hv. þingmanni um að sú forgangsröðun þarf að vera í þágu heilbrigðiskerfisins og heilbrigðismála, velferðarmála og löggæslu. Það eru þau atriði sem varða heilsu, velferð og öryggi borgaranna sem ég tel að þurfi að vera í forgangi og önnur verkefni, jafnvel þótt mikilvæg séu, mega þá frekar sitja á hakanum í samanburði við þessi verkefni.

Aftur á móti má spyrja hvort nauðsynlegt sé eða mögulegt að ráðast í byggingu nýs spítala eins og staðan er núna eða hvort ekki sé brýnna að endurnýja tækjakost og hlúa að öðrum atriðum sem varða innviði spítalans. Við verðum að horfa til þess að staða ríkissjóðs er slík að við getum ekki leyft okkur allt sem æskilegt væri að gera, en ég legg áherslu á að forgangsröðunin sé í þágu heilbrigðiskerfisins.

Ég vil nefna önnur atriði sem ég tel að skipti minna máli þótt mikilvæg séu. Í því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir þinginu er gert ráð fyrir 5 milljörðum kr. í viðhaldsverkefni á vegum Vegagerðarinnar, stofnkostnaður vegna framkvæmda að fjárhæð 8,2 milljarðar kr. og 1 milljarði kr. í stofnkostnað vegna fangelsisbyggingar. Þetta eru eflaust allt brýn verkefni en tæplega jafn brýn og það að hlúa að þeim sem eru sjúkir og líf fólks jafnvel í húfi.

Ég legg áherslu á að fundnar verði leiðir til þess að finna ef til vill 3–4 milljarða í brýnustu verkefnin á Landspítalanum á næsta ári og heilbrigðiskerfið að öðru leyti.