143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það var ánægjulegt að heyra svar hæstv. forseta rétt áðan við fyrirspurn eða hvatningu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég vona svo sannarlega að þingmenn fjárlaganefndar sameinist um að óska eftir þessum gögnum hagræðingarhópsins. Við verðum vör við það í fjárlagaumræðunni og varðandi fjárlagafrumvarpið að fólk talar um það eins og þetta séu hugmyndir eða jafnvel vangaveltur en ekki frumvarp til laga um fjárreiður og -lög ríkisins. Þetta er auðvitað stefnuplagg beggja ríkisstjórnarflokkanna, það er vert að hafa það í huga. Auðvitað skiptir það máli fyrir okkur sem fjöllum um fjárlögin að vita hvaða sjónarmið eru í gangi, hvað fram undan er samkvæmt hugmyndum meðal annars hagræðingarhópsins. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem situr í þeim hópi og er einnig í fjárlaganefnd, kemur væntanlega hér á eftir mér og ræðir þessi mál kannski enn frekar. Ég trúi ekki öðru en að hann sé sammála því að við fáum þessi gögn afhent í nefndinni.

Það er alveg ástæða til að rifja það upp núna í ljósi þessarar umræðu að þingmannanefndin sem sett var á laggirnar eftir rannsóknarskýrsluna taldi að styrkja ætti eftirlitshlutverk þingsins, rétt þingmanna til upplýsinga, aðgengi að faglegri ráðgjöf og stöðu stjórnarandstöðunnar á Alþingi sem gegndi þar mikilvægu hlutverki. Auðvitað hlýtur þetta að vera partur af því ef við eigum að leggja fram skynsamleg fjárlög og ef við ætlum að reyna að ná sátt um fjárlögin og hina mikilvægu málaflokka sem stjórnarliðar ræða hér dag eftir dag um að þurfi að breyta. Þetta er engan veginn nógu gott. Það er eitt að gera örlitlar breytingar á fjárlögum en hér hafa komið fram tillögur sem eru ekki litlar heldur risavaxnar.