143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Síðasta ríkisstjórn gerði mikla stefnu í ríkisfjármálum og hefur verið áberandi í þinginu núna að sú fjárfestingaráætlun sem þar kom fram hafi verið skorin niður. Það hafi verið skorið niður til Kvikmyndasjóðs, skorið niður í rannsóknum og að þessi mikli niðurskurður hafi orðið á mikilvægum málefnum.

Ég hef velt fyrir mér hvað orðið niðurskurður þýðir. (Gripið fram í: Ekki uppskurður.) Er hægt að skera eitthvað niður sem aldrei hefur verið? Voru þessir fjármunir komnir til aðilanna sem um ræðir? Var Kvikmyndasjóður búinn að fá 400 eða 500 milljónir? Voru peningarnir komnir í rannsóknir? Nei. Það hefur ekki neitt verið skorið til þeirra, það er enginn niðurskurður af því að það var ekkert.

Það sem meira er átti heldur aldrei að gera það. Þetta var ekkert í síðustu fjárlögum og það segir í þessu skjali um ríkisfjármálastefnuna að fjárfestingaráætlunin hafi aldrei átt að ganga í gegn nema ákveðnar forsendur væru fyrir jöfnuði í ríkisfjármálum. Sá jöfnuður náðist aldrei þannig að hefði sama ríkisstjórn verið áfram hefði hún sjálf aldrei farið í þá fjárfestingaráætlun, það stóð aldrei til. Ég held því að menn, stjórnarandstaðan hér á þinginu, geti alveg sparað sér að vera að tala um þennan niðurskurð og að menn ætli ekki að standa við það sem fyrri ríkisstjórn gerði. Hún ætlaði ekki að gera þetta sjálf. Það stóð aldrei til. Og hana nú.