143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég má til með að bregðast við orðum síðasta ræðumanns. Mér finnst mjög einkennilegt að hv. þingmaður telji sig geta túlkað verk fyrri ríkisstjórnar, hvað hún ætlaði að gera, og lesið hugsanir hennar.

Við sem vorum við stjórnvölinn síðustu fjögur ár vissum mætavel hvernig við ætluðum að afla tekna. Það fór ekkert á milli mála, við ætluðum að afla tekna með sérstökum veiðigjöldum á útgerðina í landinu sem hefðu skilað okkur á þessu og næsta ári um 10 milljörðum. (Gripið fram í: Það eru ekki fjárlögin.) Við ætluðum að afla tekna með áframhaldandi auðlegðarskatti, skatti á orkufyrirtæki, (Gripið fram í.) og við ætluðum að afla okkur tekna með auknum virðisaukaskatti á gistinætur í ferðaþjónustu. Svona mætti áfram telja.

Að tala eins og engir fjármunir hafi verið til þess að fjármagna fjárfestingaráætlun er bull, svo vægt sé til orða tekið því að það er ekki satt. Ef það hefði orðið svo gæfulegt að við hefðum verið áfram við stjórnvölinn horfðum við ekki núna fram á þennan gífurlega niðurskurð allt í kringum okkur, bæði í heilbrigðiskerfinu og á landsbyggðinni. Við höfum ekki í raun neina atvinnustefnu heldur horfum bara til gamaldags atvinnustefnu og skerum niður við trog þar sem möguleikar eru eins og í nýsköpun og rannsóknum. Þar sem allir horfa til í nútímasamfélagi er bara spólað í sama farinu.

Það er talað um að hjól atvinnulífsins eigi að fara aftur í gang, en hvaða hjól eru það? Eru það hjól á hestakerru eða erum við að fara inn í nútímann á tækniöld? Ég held að hæstv. ríkisstjórn eigi að endurskoða atvinnustefnu sína og horfa til (Forseti hringir.) grænnar framtíðar.