143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Sigurjón Kjærnested (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða um sameiningu og samþættingu háskólanáms, sérlega á höfuðborgarsvæðinu. Það eru margir staðir þar sem má samþætta og sameina til að ná sparnaði og bæta námið. Það er eitt dæmi nær mér sem mig langar að taka, sem ég held að sýni mjög vel hverju er hægt að ná fram með þessu og það er í tækninámi, í verkfræðinni.

Í bæði Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík er sem dæmi kennd vélaverkfræði. Mér reiknaðist lauslega til að 70% af því námi væri algerlega eins og afgangurinn að miklu leyti til valkúrsar sem einnig eru mikið til eins. Í þessum 70% er að auki mikið verið að nota sömu bækur, jafnvel sömu fyrirlestra og dæmi af netinu þannig að á Íslandi erum við að kenna nákvæmlega það sama með nokkur hundruð metra millibili. Í báðum skólunum vantar mjög mikið upp á verklega kennslu, upp á nýja hátæknivalkúrsa þannig að með því að standa í því að halda náminu úti á báðum stöðunum fáum við í rauninni tvær mjög svipaðar námsleiðir sem eru verri en sú eina yrði vegna þess að möguleikarnir fyrir nema til að fara í öflugt verklegt nám og spennandi nýja valkúrsa eru ekki til staðar.

Það sama á við um mun fleiri greinar en verkfræðina. Ég tek sem dæmi tölvunarfræðina. Hún er kennd á báðum stöðunum. Það er margt gott við tækninám í báðum skólunum sem mundi örugglega koma saman og styrkja eitt sameiginlegt nám. Ég vil því hvetja þingheim til að skoða vel möguleikana á að sameina og samþætta námið í tæknigeiranum.