143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nefna fyrst að í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar voru mjög mörg fögur fyrirheit en eins og má rifja upp bentum við í þáverandi stjórnarandstöðu þegar á, þegar það mál kom til umræðu, að þarna væri ansi mikið loft, verið að lofa miklu fram í tímann og lofa upp í ermina á þeirri ríkisstjórn sem átti að taka við. Það stóðst á endum.

Það er líka ljóst að í þeirri fjárfestingaráætlun voru endalausir fyrirvarar af hálfu þáverandi ríkisstjórnarflokka, alls staðar tekið fram að ekki yrði af þeim áformum nema langtímastefnumótun í ríkisfjármálum, þar á meðal um hallalausan rekstur árið 2014, stæðist. Það var alltaf tekið skýrt fram. Fjárlagahalli á þessu ári er miklu meiri en við var búist og auðvitað þurfti ný ríkisstjórn að takast á við það á ýmsan hátt.

Þrátt fyrir að í fjárfestingaráætlun væru nefnd mjög mörg jákvæð, falleg og góð verkefni verður ríkisstjórnin núverandi og sá stjórnarmeirihluti sem hér stendur í baráttunni í þinginu að forgangsraða með öðrum hætti.

Það að tala um veiðigjöldin eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir gerir hlýtur að vekja spurningar um það hvort ekki hefði þá verið skárra ef hún og félagar hennar í þáverandi hæstv. stjórnarmeirihluta hefðu gengið þannig frá löggjöf um veiðigjöldin að hún stæðist, gengi upp og væri nothæf. Svo var ekki. Þess vegna þurfti að eiga sér stað endurskoðun sem átti sér stað núna á sumardögum.

Meginvandinn sem við er að glíma er auðvitað það að fjölmörg tækifæri hafa legið vannýtt síðustu fjögur árin. Þess vegna hefur endurreisn efnahagslífsins gengið hægar en við (Forseti hringir.) áttum von á. Það er úr þeim sporum sem við þurfum að komast en við gerum það ekki (Forseti hringir.) með ráðum fyrri ríkisstjórnar. (Gripið fram í.)