143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[15:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina fyrir þessu máli og vildi fyrst og fremst inna hana eftir tímalengdinni á framlengingunni. Það vildi brenna við í kjölfar efnahagshrunsins að inn í þingið kæmu bráðabirgðaákvæði eða framlengingar um 12 mánuði í senn aftur og aftur og aftur.

Það er auðvitað mikill ósiður við lagasetningu og ég spyr þess vegna ráðherrann í fyrsta lagi: Er þessi 12 mánaða framlenging í huga ráðherrans endanleg? Verður dómurum þá fækkað að þessari framlengingu lokinni eða megum við búast við því að hér verði aftur komið inn með sérstakt frumvarp til laga til að framlengja aftur um 12 mánuði þegar þessu tímabili er lokið?

Álag á dómstóla er mikið, kemur fram hjá ráðherranum, og dómstólaráð hefur leitað eftir þessu. Því spyr ég í öðru lagi: Hefur hæstv. ráðherra handbærar upplýsingar um málafjölda, hversu miklu meiri hann er heldur en í meðalári eða um biðtíma hjá dómstólunum eftir því að fá mál til afgreiðslu eða tíma frá því að mál eru lögð fram í dómstólunum þangað til í þeim fæst endanlegur úrskurður þannig að þingheimur geti áttað sig á því hversu mikill vandi þetta mikla álag er nákvæmlega?