143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[15:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Ég vona innilega að við séum stödd á þeim stað að það eina ár sem er beðið um núna til framlengingar, þ.e. til 1. janúar 2015, nægi og að við getum haldið því áfram sem talað er um í greinargerð með frumvarpinu, að síðan fari fjöldinn niður í 38 smátt og smátt. Ég vona það innilega. Ég þori hins vegar ekki að fullyrða það. Ég efast ekki um að það var líka fullyrt fyrir ári að þannig mætti það verða, en ég vona það og það er gert ráð fyrir því miðað við frumvarpið. Ég þori ekki að lofa því alfarið að við getum treyst því að þannig verði það en við stefnum að því.

Hv. þingmaður nefndi líka málafjöldann. Hann er svipaður en málin hafa þyngst og erfiðum, þungum og tímafrekum málum hefur fjölgað. Það veldur því að þyngslin á kerfinu eru meiri og eru enn svo mikil að það er ekki talin ástæða eða forsenda til þess að fækka dómurum strax. Ég næ ekki að svara því í andsvari en ég get, kjósi þingmaður það, afhent honum gögn sem sýna málafjöldann og staðfesta það að erfiðum málum hefur fjölgað. Það veldur mesta álaginu á kerfinu. (Gripið fram í.)