143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[16:04]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég byrja á að svara seinni spurningunni fyrst, hvort ég telji það enn þá viðunandi. Það hefur kannski örlítið hallað undan fæti en ef við berum okkur saman við önnur lönd stöndum við mjög vel að vígi. Við erum eitt af örfáum löndum sem eru aðilar að þessum Evrópusáttmála sem eiginlega stöndum okkur sæmilega með það að fólk fái réttláta málsmeðferð hvað hraðann varðar. Ég fór einu sinni til Ítalíu og það þykir nú gott þar ef sakborningur er á lífi þegar dómur gengur loksins. Það er víst allur gangur á því. Við stöndum því tiltölulega vel að vígi þar.

Varðandi fyrri spurninguna er ég ekki viss um að þurfa að endurtaka það að ári liðnu að halda þessari fjölgun. Ég tala nú ekki um ef menn fara í ákveðna hagræðingu með dómstörfin og þau störf sem eru unnin innan dómstólanna. Ég trúi því að menn fari í það og ég held að það hafi verið á teikniborðinu í þó nokkurn tíma að starfsfólkið nýtist þar betur, þ.e. kannski ódýrara starfsfólkið. Ég tel frekar ólíklegt að það þurfi að framlengja þetta mikið lengur en þetta ár, hugsanlega kannski eitt ár þar í viðbót en ekki mikið lengur. Stóru málin klárast á næstu tveimur árum, mundi ég ætla.