143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[16:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar er greinilega aspírant til laganáms og hefur fundið nýjan gúrú í þeim efnum og það var virkilega gaman að hlusta á samskipti þeirra hér áðan og fræðandi.

Hv. þm. Brynjar Níelsson þekkir þessi mál greinilega ákaflega vel. Í báðum ræðum sínum áðan talaði hann um að hægt væri að nýta fjármuni betur með því að hagræða. Hann talaði um það, eins og ég skildi hann, að dómarar væru að vinna störf sem kannski ættu ekki að vera á þeirra verksviði og hægt væri að nýta starfskrafta þeirra betur. Miðað við að fimm dómarar kosta 86 milljónir eru þeir ágætlega launaðir, a.m.k. miðað við okkur sem erum í þessum sal.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað á hann við? Með hvaða hætti væri hægt að nýta þessa fjármuni betur? Og í öðru lagi, út frá svari hans til hv. þm. Helga Hjörvars: Hvernig er hægt að hagræða þessu og hvar er það statt á teikniborðinu, eins og hv. þingmaður upplýsti um og hugsanlega kann að hafa komist einhvers staðar að, þó að hann sé nú ekki í merkustu nefnd lýðveldisins nú um stundir, hagræðingarnefnd hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur? En kannski kemst hann einhvern tíma í hana ef hann kemur með góðar hugmyndir núna.