143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005, með síðari breytingum. Það frumvarp sem hér um ræðir er liður í endurskipulagningu neytendamála sem byggir meðal annars á tillögum starfshóps sem falið var að fara yfir skipan neytendamála hér á landi. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum þriggja ráðuneyta en auk innanríkisráðuneytisins komu umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti að vinnunni.

Til upprifjunar má minna á að mikil breyting hefur verið gerð á stjórnskipulagi neytendamála innan Stjórnarráðsins á síðustu árum en árið 2009 voru neytendamál flutt að hluta frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og árið 2013 voru fleiri þættir neytendamála fluttir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti til innanríkisráðuneytis. Allur málaflokkurinn heyrir nú eins og þingheimi er kunnugt undir innanríkisráðuneytið. Margt bendir til þess að þörf sé þó á frekari breytingum á stofnanafyrirkomulagi innan málaflokksins en það bíður betri umræðu hér síðar.

Með frumvarpi þessu er lagt til að verkefni talsmanns neytenda verði sameinuð verkefnum Neytendastofu. Reynslan hefur sýnt að mjög óhagkvæmt er að reka stofnun með eingöngu einum starfsmanni sem á að sinna öllu í senn; rekstrarlegum þáttum, öflugri faglegri starfsemi, halda úti upplýsingagjöf til almennings, reksturs heimasíðu o.s.frv.

Engin sambærileg embætti eru starfrækt annars staðar á Norðurlöndum og þar sem valdheimildir embættisins eru litlar setur það starfseminni nokkrar skorður. Einnig virðist í hugum neytenda ekki vera skýr verkaskipting milli embættis talsmanns neytenda og Neytendastofu. Þá er slíkt fyrirkomulag, að hið opinbera haldi annars vegar úti Neytendastofu og hins vegar embætti talsmanns neytenda, til þess fallið að skapa nokkurn misskilning. Bæði meðal neytenda svo og um aðgreiningu verksviðs hvorrar stofnunar fyrir sig.

Með hliðsjón af þessu svo og stærð lands og þjóðar er skynsamlegt að stefna að því að reka eina og skilvirka opinbera stofnun á sviði neytendamála líkt og hefur komið fram í áliti margra, m.a. í skýrslu þriggja stofnana Háskóla Íslands sem gefin var út í maí 2008 undir heitinu Ný sókn í neytendamálum þar sem hvatt var til þessa verklags.

Þá er í frumvarpinu einnig lagt til að breyta ákvæði laganna um forstjóra Neytendastofu. Í gildandi lögum eru hæfisskilyrði forstjóra skilgreind mjög þröngt. Málefnasvið stofnunarinnar eru mjög víðtæk og er þetta ákvæði ekki í samræmi við sambærileg ákvæði um forstöðumenn ríkisstofnana og er því lagt til að því sé breytt til samræmis við það. Þess í stað verði skýrt kveðið á um skyldur forstjóra í lögunum. Þrátt fyrir breytingu á ákvæðinu er ekki gert ráð fyrir að um rýmri ábyrgð sé að ræða en ella gildir um aðra forstöðumenn ríkisstofnana.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.