143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina. Þó að talsmaður neytenda hafi látið mjög að sér kveða meðan hann hefur starfað held ég að fyrir því geti verið sterk efnisrök að fara þá leið sem hæstv. ráðherra leggur til hér að leggja talsmann neytenda inn í Neytendastofu og breyta um leið skilyrðunum sem lúta að forstjóra þeirrar sameinuðu stofnunar.

Þegar við ráðumst í aðgerðir af þessu tagi, eins og að leggja saman opinberar stofnanir, þá fylgja því iðulega yfirlýsingar af hálfu ráðherra viðkomandi málaflokks um að þeim sem starfa hjá hlutaðeigandi stofnunum sem verið er að sameina muni við sameininguna bjóðast sambærileg verkefni á vegum hinnar nýju sameinuðu stofnunar eins og þeir höfðu áður hjá hinni. Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvort einhver slík fyrirheit væru til þess sem starfar sem talsmaður neytenda í dag.