143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir margt af því sem fram kemur í máli hv. þingmanns sem talaði hér á undan. Ég vil árétta að það þarf að fara fram skoðun, eins og ég nefndi í ræðu minni. Ég sagði orðrétt að margt benti til þess að þörf væri á frekari breytingum á stofnanafyrirkomulagi innan málaflokksins.

Ég tel að við þurfum að rýna það betur hvernig við höldum utan um neytendavernd og hvort við getum gert það betur, meðal annars með því sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. Ég get upplýst hv. þingmann um að þær viðræður hafa átt sér stað á milli innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hvort hægt sé að vinna betur að málaflokkunum og hvort það sé endilega farsælasta framtíðarfyrirkomulagið að neytendamálin — og ég get alveg sagt það þannig að það sé alveg skýrt: Sá ráðherra sem hér stendur mun ekki verja það með kjafti og klóm að eins margar stofnanir og mögulegt er heyri undir hennar ráðuneyti. Mér finnst bara að þingið eigi að ræða það og að við eigum að velta því fyrir okkur hvort hægt sé að halda betur utan um málaflokkinn. Þá er þar ein lausn, sú sem hv. þingmaður nefndi hér áðan og ég hef rætt formlega við iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hana.