143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[17:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get nefnt fjölda stofnana en ég ætla að taka eitt fram áður en ég geri það. Ég er ekki að tala um að kostnaðurinn, 35–40 milljarðar, falli bara niður. Ég er ekki talsmaður þess að hér verði ekki eftirlit. Ég er talsmaður þess að við komum á skynsamlegu og hagkvæmu skipulagi sem er neytendum og fyrirtækjum til góða.

Ég ætla að nefna eitt. Ég held að það eigi að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Ég held að það sé eitt af stærstu málunum sem við eigum að vinna að. Það mundi spara gríðarlega peninga. Ég held að það eigi að skoða ýmsar stofnanir er viðkoma til dæmis Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Landmælingum Íslands. Mér sýnist að hugsanlega mætti skoða samvinnu þeirra stofnana sem og Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Vinnueftirlitið, Geislavarnir ríkisins, Matvælastofnun o.s.frv. Við gætum líka skoðað, og ég skal gera það með hv. þingmanni og við gætum jafnvel fengið hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson og Unni Brá Konráðsdóttur til að vera með okkur í þeirri athugun, að einfalda innheimtukerfi ríkissjóðs. Það kostar skattkerfið, innheimtukerfið kostar 6,4 milljarða kr. á þessu ári. Þar af eru 6,3 í beinan rekstur. Ég held að augljóst sé að með einfaldara og skilvirkara innheimtukerfi opinberra gjalda sé hægt að ná fram verulegum sparnaði.

Það má til dæmis velta því fyrir sér hvort sameina eigi embætti tollstjóra og skattstjóra o.s.frv. Það er af nógu að taka. En fyrst mundi ég leggja niður þá stofnun sem þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson tók þátt í að stofna og það er Fjölmiðlastofa eða fjölmiðlanefnd eða guð má vita hvað hún heitir í dag.