143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

11. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðum og skal reyna að svara spurningum hv. síðasta ræðumanns.

Varðandi frekari rannsóknir eða greiningu á þessum hópi get ég ekki sagt að það liggi fyrir mjög skýr mynd af því hvernig hann er nákvæmlega samansettur. Það sem er hægt að draga í sundur er hver hluti lánanna var til að fjármagna íbúðakaup. Það er einfaldlega gert á þeim grunni, geri ég ráð fyrir, að það eru lán sem stofna rétt til vaxtabóta. Það eru gögn frá skattinum sem hægt er að nota til að aðgreina þann hluta lánanna frá hinum, því þarna eru menn að nýta sér lántökurétt sinn hjá lífeyrissjóðum og þeir verða sér út um veð jafnvel þó að lánið sé notað til bílakaupa eða einhverra annarra hluta.

Í þeim tilvikum sem íbúðakaup hafa farið fram innan tilskilinna tímamarka sem skilgreind eru í lögum og gilda um það hvaða lán stofna rétt til greiðslu vaxtabóta, flokkast þau þar með. Það er eins og þarna kemur fram tæp 60% lánanna sem fóru í slíkt.

Það sem hins vegar liggur nokkuð ljóst fyrir er að hér er yfirleitt um yngra fólk að ræða. Hér er hlutfall fyrstu íbúðakaupa hátt. Það er hægt að fullyrða held ég með nokkuð óyggjandi vissu að það á við um hópinn að hann er almennt ungur og það er almennt hærra hlutfall fyrstu íbúðakaupa heldur en á við á lánamarkaðnum eða fasteignamarkaðnum almennt.