143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

11. mál
[18:01]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu góð spurning hversu lengi þolinmæði lífeyrissjóðanna endist ef þeir fara ekki að fá einhver skýr skilaboð um það hvort ríkið ætli að sínu leyti að efna samkomulagið eða standa að því. Ég geri ráð fyrir að þeir bíði enn um sinn, svo mikið var fyrir þessu haft. Þó hér komi fram að lífeyrissjóðirnir hafi verið tregir í taumi, og menn hafi fyrir því sín rök, vil ég halda því til haga að allan tímann stóð vilji lífeyrissjóðanna auðvitað til þess að reyna að finna leiðir. Þeir verða að eiga það þótt menn tækjust mikið á um það hvernig kostnaðarskiptingin gæti orðið og hvað mætti réttlæta háa hlutdeild lífeyrissjóðanna í þessu.

Langalvarlegast er auðvitað biðin og óvissan fyrir þá sem í hlut eiga, þ.e. lánsveðshópinn sjálfan. Þessi yfirlýsing er nokkuð óvenjuleg því hún er ekki bara undirrituð af stjórnarformanni Landssamtaka lífeyrissjóða og framkvæmdastjóra Landssamtakanna, heldur af fjórum ráðherrum í þáverandi ríkisstjórn. Fullur þungi var lagður í að reyna að undirstrika að hér væri alvara á ferð.

Ég lít reyndar svo á að núverandi ríkisstjórn hefði borið skylda til að leggja fram frumvarp jafnvel þótt hún væri ósammála. Þegar ráðherrar með lögmætri ákvörðun skuldbinda sig til að standa að samkomulagi við aðila eins og lífeyrissjóði með undirskrift sinni er það að mínu mati vanræksla ef ekki er látið reyna á þingviljann, hvort hann sé til staðar.

Ég var því þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin ætti sjálf, eða þeir ráðherrar sem fara með þessi mál, að leggja frumvarp fyrir Alþingi jafnvel þó að þeir væru ósammála samkomulaginu og legðu til við þingið að það yrði fellt. En þá fæst fram vilji þingsins og þetta snýst um að hann verði að koma fram. Er vilji til að efna (Forseti hringir.) samkomulagið og fara í þessa aðgerð eða ekki? Því verður Alþingi að svara og getur ekki ýtt því frá sér.