143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

13. mál
[19:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að mæla fyrir því frumvarpi sem við ræðum hér um breytingu á lögum um þjóðfána okkar Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, lög nr. 34/1944, með síðari breytingum.

Lengi hefur verið leitað eftir því að fá að nota þjóðfánann sem vörumerki en þrátt fyrir nokkrar tilraunir hefur það ekki tekist hingað til, það kom kannski fram í ágætisfyrirspurn hv. þm. Bjarkar Vilhelmsdóttur. Ég trúi því að þessi umræða muni geta skilað sér inn í nefndarumfjöllun og bætt úr frumvarpinu en ég held að þetta hnykki á því af hverju þetta hefur reynst þungt í vöfum þrátt fyrir að málið sé gott.

Við höfum eðli málsins samkvæmt verið íhaldssöm á merki þjóðfánans og það er skiljanlegt. Fáninn er okkur kær en við erum líka mjög stolt af framleiðslu okkar og hönnun. Í harðri alþjóðlegri samkeppni er því við hæfi að merkja okkar tæru einstöku afurðir og séríslenska hönnun með því merki sem er okkur kærast og auðkenna þannig íslenska framleiðslu. Þó er mikilvægt að stíga varlega til jarðar og tryggja að merkið sé einungis notað á það sem er sannarlega íslenskt.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur hafa í gegnum tíðina borist umsagnir með þessum tilraunum til að fá að nota þjóðfánann sem vörumerki. Þar kemur skýrt fram, meðal annars var vitnað í Bændasamtökin og forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins, að mikilvægt sé að veita þetta tækifæri, þ.e. að geta auðkennt íslenska framleiðslu með íslenska þjóðfánanum, en um leið verðum við hins vegar að vera meðvituð um nauðsyn þess að tryggt verði að um íslenska vöru sé að ræða og að rík krafa verði gerð um uppruna vörunnar sem réttlæti notkun íslenska fánans. Það er þá í höndum ráðherra samkvæmt frumvarpinu að tryggja það enn frekar með reglugerð og nánari skilyrðum um notkun fánans.

Ég skal játa, svo að ég vitni aftur í andsvör hv. þm. Bjarkar Vilhelmsdóttur, að þar komi þá til kasta þessarar nefndar með sérfræðiþekkingu. Ég tel að við séum að ganga skrefi lengra í því að skilgreina og afmarka þær vörur sem til greina kemur að fái að nota fánann. En með því að nota íslenska fánann í markaðssetningu, eins og farið er fram á í frumvarpinu, verður íslenska fánamerkið á íslenskri framleiðslu merki um gæði og stolt. Það er eins konar virðingarvottur getum við sagt við íslenska framleiðslu. Í því er fólgin neytendavernd og það mun styrkja íslenska framleiðslu, afurðir og hönnun í markaðssókn erlendis sem og hérlendis.