143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

fjarvera forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til að kveðja mér hljóðs og spyrjast fyrir um hvað valdi því að hér er viðvarandi fjarvera hæstv. forsætisráðherra. Þetta er þriðji óundirbúni fyrirspurnatíminn í röð þar sem ráðherra er fjarverandi. Það hefur nú verið í eina tíu daga og stefnir í að það líði þrjár vikur á hábjargræðistímanum milli þess sem hæstv. forsætisráðherra er hér til andsvara. Hlutverk Alþingis er að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og það er býsna erfitt að gera ef verkstjóri framkvæmdarvaldsins, forsætisráðherra sjálfur, er hér vikum saman ekki til svara fyrir þingmenn.

Sú ákvörðun var nú tekin í vikunni að fella niður þingdag á morgun, föstudag, sem ráð var fyrir gert í starfsáætlun þingsins. Það er vegna þess að það eru engin mál til að ræða frá ríkisstjórninni önnur en einhverjar EES-tilskipanir og endurflutt mál síðustu ríkisstjórnar. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að geta rætt við verkstjóra ríkisstjórnarinnar um þessa stöðu mála.

Hér var til umræðu í gær hvernig forsætisráðherra hefur neitað þinginu um aðgang að upplýsingum frá hagræðingarnefnd og auðvitað þarf forsætisráðherra að vera hér til andsvara. Ég bið forseta að skýra hvað valdi fjarveru forsætisráðherra fund eftir fund (Forseti hringir.) eða þá forustumenn Framsóknarflokksins, þingflokksformann eða varaformann sem hér kunna að vera því þetta er ekki vel viðunandi. Ég treysti því að forsætisráðherra sé búinn að vera í burtu (Forseti hringir.) í brýnum erindagerðum, á mikilvægum fundum hið minnsta.