143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hefði vel getað hugsað mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hefði hann verið hér í einhverjum af síðustu fyrirspurnatímum en ég spyr þá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í staðinn, í ljósi orða sem höfð voru eftir honum í vikunni, um afnám gjaldeyrishafta sem ég held að við hérna inni séum öll sammála um að sé risavaxið verkefni sem á eftir að skipta gríðarlegu máli fyrir efnahagslega velferð þessarar þjóðar að vel takist til. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í viðtali við Bloomberg-fréttastofuna að það ætti að vera hægt að leysa þetta vandamál innan árs, þ.e. afnema höftin, jafnvel innan sex til níu mánaða. Mig langar því að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir nýrri áætlun um afnám hafta sem hæstv. forsætisráðherra lofaði að kæmi fram í september. Nú er 17. október og enn hefur þessi nýja áætlun um afnám hafta, sem átti m.a. að byggjast á hugmyndum hæstv. forsætisráðherra, ekki verið kynnt. Væntanlega liggur hún fyrir í drögum úr því að hæstv. fjármálaráðherra telur að einungis séu sex mánuðir í að þetta verkefni leysist.

Mig langar líka að inna hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eftir því hvort til standi að boða hina þverpólitísku nefnd sem var starfandi á síðasta kjörtímabili á fund til að kynna þessa áætlun ef hún liggur fyrir. Ég vænti þess að hún liggi fyrir úr því að það styttist í þetta. Nú hefur mér ekki borist til eyrna að haldinn hafi verið fundur í þessari þverpólitísku nefnd. Ég hlustaði vel á hæstv. fjármálaráðherra á septemberþingi þar sem hann lagði ríka áherslu á að áfram yrði haldið með þverpólitískt samráð, ekki síst í ljósi stærðar og umfangs þessa máls.

Ég bið að lokum hæstv. fjármálaráðherra að upplýsa þingið, í ljósi þess að sex mánuðir er stuttur tími, um hvar málið er statt svo að allir hv. þingmenn séu meðvitaðir um hver tímastaðan er á þessu stóra máli.