143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Uppfærsla á áætlun um afnám haftanna er sameiginlegt verkefni þeirra sem koma að málinu og liggur ekki fyrir í neinni endanlegri mynd heldur er áfram unnið eftir þeirri áætlun sem hefur verið í gildi. Varðandi höftin og möguleika okkar til að losa um þau í framtíðinni skiptir óskaplega miklu máli að menn fari ekki fram úr sér og fari líka rétt með það sem sagt er í umræðunni.

Mín skoðun er sú að í sjálfu sér sé ekkert tæknilegt eða efnislegt í þessu máli sem geri að verkum, ef menn horfa á hlutina sömu augum, að það ætti að taka öllu lengri tíma en sex mánuði, níu mánuði, a.m.k. innan árs, að vinna úr helstu viðfangsefnunum. Hins vegar ef væntingar þeirra sem koma að málinu eru mjög ólíkar, sýn þeirra á það hvað er raunhæft er allt önnur, er þetta miklu flóknara viðfangsefni.

Það sem íslensk stjórnvöld hafa gert fram til þessa og munu áfram gera er að verja hagsmuni okkar Íslendinga, íslensks efnahagslífs, heimilanna í landinu og fyrirtækjanna í landinu, lágmarka neikvæð áhrif á gjaldmiðilinn í tengslum við afnám haftanna. Ég hef alltaf horft þannig á þetta mál að það séu það ríkir hagsmunir alls staðar í kringum borðið að það ætti að vera hægt að koma hreyfingu á hlutina. Tíminn hafi í sjálfu sér unnið með okkur fram til þessa til að skilja betur þá krafta sem eru að verki í málinu. Þess vegna á ég von á því (Forseti hringir.) að á næstunni getum við kallað saman þennan þverpólitíska hóp og tekið næstu skref.