143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég hjó þó eftir því að hann upplýsti ekki hvenær ný áætlun mundi liggja fyrir, hann sagði okkur að áfram væri unnið eftir þeirri áætlun sem væri í gildi. Gott og vel. En sú áætlun sem átti að koma í september kemur ekki þannig að mig langar að endurtaka spurningu mína, hvort við eigum von á þessari nýju áætlun á næstunni; og ég vona þá að „á næstunni“ sé ekki teygjanlegt hugtak í sama mæli og „strax“.

Ég fagna því ef þverpólitíska nefndin verður boðuð — og „á næstunni“ merkir þá væntanlega bara í þessum mánuði, á næstu vikum væntanlega. En það sem ég heyri og mér finnst skipta máli hér er að hæstv. fjármálaráðherra — og það er mikilvægt að allir hv. þingmenn séu mjög meðvitaðir um að það eru ríkir fyrirvarar í þessu máli, þ.e. að þetta getur gengið hratt fyrir sig svo fremi menn séu með samrýmanlegar væntingar. Það er kannski stóra málið að mér finnst mikilvægt að hv. þingmenn séu þá upplýstir um það (Forseti hringir.) hvort einhverjar viðræður eru farnar af stað, hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi ástæðu til að ætla að þessar væntingar séu samrýmanlegar eða hvort sú vinna er enn eftir.